Innlent

Íslensk börn fá "Jól í skókassa"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Jólaverslunin er hafin, Íslendingar þeytast á milli verslana í leit að réttu jólagjöfunum og margir eyða tugum og jafnvel hundruðum þúsunda. Sem þjóð höfum við það afskaplega gott en sumir sjá þó neyð hér og vilja gera sitt til að hjálpa til.

Thomas Meister, sendiherra Þýskalands, afhenti í dag Fjölskylduhjálp Íslands jólagjafir í skókössum, ætlaðar íslenskum börnum. Gjafirnar koma frá samfélagi Þjóðverja á Íslandi, en þeir héldu sameiginlega guðsþjónustu í Landakotskirkju á fyrsta í aðventu, þar sem gjöfunum var safnað saman.

Þetta kann að koma einhverjum á óvart, enda hafa Íslendingar sjálfir sent gjafir til þurfandi barna í Úkraínu í gegnum verkefnið Jól í skókassa og þar er þörfin kannski augljósari. Verg landsframleiðsla getur til dæmis gefið vísbendingu um efnahagslegt ástand og ef tölur fyrir árið 2011 eru skoðaðar kemur í ljós að á meðan Ísland vermir 23. sæti á lista yfir mesta verga landsframleiðslu, nær Úkraína aðeins sæti áttatíu og þrjú.

700 fjölskyldur munu þó njóta aðstoðar Fjölskylduhjálpar Íslands fyrir þessi jól og þurfa samtökin nú að neita beiðnum um aðstoð á hverjum degi.

Í meðfylgjandi myndskeiði er rætt við Thomas Meister, sendiherra Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×