Fótbolti

Harpa: Hún er örugglega orðin gráðug

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Nordic Photos / AFP
Harpa Þorsteinsdóttir vonast eftir því að leikur íslenska landsliðsins á móti Hollandi í dag líkist fyrsta leiknum við Norðmenn þar sem íslenska liðið náði í sitt fyrsta stig á EM. Ísland mætir Hollandi í dag og sigur tryggir íslenska liðinu sæti í átta liða úrslitum EM í Svíþjóð.

„Við þurfum að leggja áhersluna á það að stoppa framlínuna hjá þeim. Þær eru með mjög flinka leikmenn fram á við sem eru allar líklegar til að valda usla. Þær hafa ekki skorað á mótinu en liðin hafa líka verið að liggja til baka á móti þeim. Það hefur greinilega virkað þannig að ætli við leggjum ekki upp með eitthvað svipað," segir Harpa.

„Þetta verður vonandi líkara Noregsleiknum heldur en Þýskalandsleiknum. Við eigum mun meiri möguleika í sóknarleiknum á móti þessu liði heldur en á móti Þýskalandi. Við erum nær Hollandi í styrkleika. Þetta kemur því til með að ráðast meira á baráttu og dagsformi," segir Harpa.

Stjörnuleikmaður Hollendinga Manon Melis er mikill markaskorari en hún hefur ekki fundið sig á mótinu til þessa. Það breytir því ekki að íslenska liðið þarf að passa sérstaklega að hún komist ekki á flug í dag.

„Það þarf að hafa miklar gætur á Manon Melis. Hún getur unnið leiki upp á eigin spýtur. Hún er örugglega orðin gráðug en gæti líka orðið fljótt pirruð ef við tökum fast á henni í byrjun. Við verðum að gera það," segir Harpa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×