Lífið

Aðdáandi Ásgeirs fékk símtal frá BBC

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Margrét María Sigurðardóttir fékk óvænt símtal frá þáttastjórnanda BBC.
Margrét María Sigurðardóttir fékk óvænt símtal frá þáttastjórnanda BBC. Myndir/Vilhelm og Valli
„Þetta kom mér mjög á óvart og ég var við það að skella á hann,“ segir Margrét María Sigurðardóttir lögfræðingur, sem fékk skemmtilegt símtal frá þáttastjórnandanum Dermot O"Leary á BBC Radio 2 útvarpsstöðinni fyrir skömmu.

Um er að ræða viðtal sem Ásgeir Trausti fór í á BBC Radio 2 útvarpsstöðinni fyrir skömmu. Viðtalið tók óvænta stefnu þegar stjórnandi þáttarins Dermot O"Leary, sem er kynnir X-Factor þáttanna á Bretlandi og mikil stjarna, ákvað að gera smá tilraun.

Hann hafði heyrt að tíu prósent Íslendinga ættu plötu Ásgeirs, Dýrð í dauðaþögn, og hafði hann í fórum sínum gamla símaskrá sem hann hafði fengið hjá Sendiráði Íslands í London.

María Rut Reynisdóttir,umboðsmaður Ásgeirs Trausta, hafði gaman af viðtalinu.fréttablaðið/Pjetur
„Hann ákvað að opna símaskrána, sem er frá árinu 2009, einhvers staðar og finna eitthvert nafn í skránni og hringja í þá manneskju, sem reyndist vera Margrét. Ásgeir hafði ekki hugmynd um þetta,“ útskýrir María Rut Reynisdóttir, umboðsmaður Ásgeirs Trausta, um gjörninginn.

Í samtali O'Leary og Margrétar kom í ljós að mamma Ásgeirs hafði kennt syni Margrétar þegar þau bjuggu öll á Húsavík. 

„Tilraun þáttastjórnandans gekk upp því auðvitað átti hún diskinn og öllum þarna á útvarpsstöðinni var mikið skemmt,“ segir María Rut.

Spurð um álit sitt á Ásgeiri Trausta segist Margrét María hafa mjög gaman af honum. „Eftir þetta atvik hef ég sett mér það markmið að sjá hann á tónleikum sem allra fyrst,“ bætir Margrét María við.

Í þættinum taka Ásgeir og gítarleikarinn Júlíus Aðalsteinn Róbertsson órafmagnaða útgáfu af laginu Torrent, sem heitir á íslensku Nýfallið regn og einnig frábæra útgáfu af laginu Heart Shaped Box með Nirvana. 

„Í því lagi mátti ekki segja orðið Hymens svo Ásgeir deyr ekki ráðalaus og skellir inn íslenskri merkingu orðsins,“ bætir María Rut við. 

Á næstunni kemur Ásgeir fram ásamt félögum sínum í sjónvarpsþættinum Made in Chelsea sem er vel þekktur í Bretlandi. Hægt er að hlusta á viðtalið hér fyrir neðan eða á heimasíðu BBC en Ásgeir kemur fram eftir eina klukkustund og sextán mínútur.

Þá er einnig að finna nýtt myndband frá Ásgeiri fyrir neðan viðtalið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.