Innlent

Geðsjúka fíkla vantar húsnæði utan Klepps

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Geðsjúkum einstaklingum með fíknivanda heldur áfram að fjölga í samfélaginu. Vinsælustu vímuefnin eru kannabis og amfetamín, en tengsl þess fyrrnefnda við geðrofssjúkdóma hafa mikið verið rannsökuð erlendis. 
Fréttablaðið/GVAS
Geðsjúkum einstaklingum með fíknivanda heldur áfram að fjölga í samfélaginu. Vinsælustu vímuefnin eru kannabis og amfetamín, en tengsl þess fyrrnefnda við geðrofssjúkdóma hafa mikið verið rannsökuð erlendis. Fréttablaðið/GVAS

Sjö af tíu sjúklingum á legudeild Klepps bíða eftir framhaldsbúsetuúrræðum utan deildarinnar. Aðstæður sjúklinga á deildinni hafa lítið sem ekkert breyst síðan Fréttablaðið fjallaði um málið fyrir meira en hálfu ári.

Þrír af þessum tíu hafa lokið meðferð en komast hvorki lönd né strönd þar sem framhaldsbúsetuúrræði vantar. Mönnum með svokallaða tvígreiningu, það er geðgreiningu með fíknivanda, hefur fjölgað á deildinni og eru þeir nú þrír. Eydís K. Sveinbjarnardóttir, deildarstjóri á legudeild og göngudeild Klepps, segir að um sé að ræða unga menn á aldrinum 20 til 30 ára. „Þá hugsun vantar mikið í kerfið að við erum alltaf að fást meira og meira við fólk sem er með alvarlega geðsjúkdóma og fíkn í kannabis og amfetamín,“ segir hún.

Ljóst þyki að nauðsynlegt sé að meðhöndla hvort tveggja í einu; fíknina og geðsýkina. „Við þurfum að horfa alvarlegum augum á að á næstunni kemur hópur til með að þurfa slíka búsetu,“ segir hún.

„Samkvæmt skaðaminnkandi nálgun þurfum við að horfast í augu við að hluti þessara sjúklinga mun ekki ná að halda sér edrú og það þarf fleiri úrræði sem taka tillit til þess.“ Eitt slíkt búsetuúrræði er rekið við Miklubraut í Reykjavík. Pláss er fyrir átta manns í húsnæðinu, en vegna framkvæmda er nú einungis pláss fyrir sjö. Heiða Brynja Heiðarsdóttir, deildarstjóri á Miklubraut, segir ekki mikið um flæði íbúa. Mennirnir geti í sjálfu sér dvalið á heimilinu ævilangt. Að minnsta kosti einn hafi dvalið í húsinu síðan það var opnað árið 2002. Aldursbil íbúanna er frá um sextugu niður í fertugt. Mennirnir mega neyta vímuefna utan hússins.

„Svo lengi sem þeir hlýða húsreglum mega þeir vera kafdópaðir eða blindfullir,“ segir Heiða Brynja. Hún segir ljóst að átta pláss fyrir tvígreinda sjúklinga í neyslu séu langt frá því að vera nóg. „Vandinn er að halda þeim edrú og því verður að vera til kjarni sem leyfir þeim að vera í neyslu. Annars er alltaf verið að henda þeim út.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×