Innlent

Útlit fyrir að aðeins þrjár konur sitji í nýrri ríkisstjórn

Breki Logason skrifar

Allt lítur út fyrir að einungis þrjár konur muni setjast í níu manna ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins. Líklegt er talið að Kristján Þór Júlíusson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðaustkjördæmi verði ekki ráðherra.

Ekki liggur fyrir hverjir muni skipa ráðherraembætti flokkanna en formennirnir munu bera upp tillögur sínar á þingflokksfundum í kvöld. Þó er ljóst að ráðherrum verður fjölgað og verða þeir níu talsins.

Fréttastofa hefur rætt við fjölda fólks úr báðum flokkum í dag og samkvæmt heimildum mun ríkisstjórnin líta svona út.

Þeir félagar Sigmundur Davíð og Bjarni Ben munu skipta forsætis- og fjármálaráðuneytinu á milli sín.

Framsóknarmenn eru með þrjá aðra ráðherra.

Mikil sátt virðist ríkja um það að Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður flokksins verði umhverfis-, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

Eygló Harðardóttir mun veita félagsmálaráðuneytinu forystu og Gunnar Bragi Sveinsson verði utanríkisráðherra.

Sjálfstæðismenn munu skipa fjögur ráðherraembætti til viðbótar. Illugi Gunnarsson verður menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.

Auk þeirra mun flokkurinn skipa iðnaðar- og viðskiptaráðherra í atvinnuvegaráðuneyti en því embætti mun Ragnheiður Elín Árnadóttir gegna samkvæmt heimildum.

Eina spurningamerkið hjá Sjálfstæðismönnum er heilbrigðisráðherra sem flokkurin skipar í velferðarráðuneyti. Flestir segja þó að Einar Kristinn Guðfinnsson muni fá ráðherrastólinn frekar en Kristján Þór Júlíusson. Einar búi bæði yfir reynslu sem ráðherra auk þess sem hann hafi staðið nokkuð þétt að baki Bjarna formanni öfugt við Kristján Þór, sem meðal annars bauð sig fram gegn Bjarna á landsfundi.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir mun síðan verða forseti Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×