Íslenski boltinn

Præst til Stjörnumanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Scholz skildi eftir sig stórt skarð í Stjörnuliðinu.
Alexander Scholz skildi eftir sig stórt skarð í Stjörnuliðinu. Mynd/Ernir
Stjörnumenn eru búnir að finna mann fyrir Alexander Scholz sem fór til belgíska félagsins Lokeren eftir síðasta tímabil. Michael Præst, fyrirliði danska b-deildarliðsins FC Fyn, mun spila með Stjörnunni í Pepsi-deildinni í sumar en þetta kemur fram á fótbolti.net

Michael Præst er 26 ára og 183 sm varnarmaður sem hefur spilað mest sem miðvörður en getur einnig leyst stöðu hægri bakvarðar. Hann hefur spilað með FC Fyn sem og Vejle B og Kolding FC.

Það má búast við að þarna sér á ferðinni fjölhæfur leikmaður eins og Alexander Scholz og því gæti Præst einnig spilað inn á miðjunni.

Præst var með lausan samning hjá FC Fyn eftir að félagið fór á hausinn í síðasta mánuði. Í samtali við danska netmiðla í síðustu viku talaði hann um að vera með tilboð frá liði á Íslandi sem og liðum í dösnku b-deildinni en hann ákvað að skella sér í Garðabæinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×