Innlent

Það átti að koma Ögmundi út

Jón Bjarnason segir það réttmæta gagnrýni að Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, vilji aðeins raða já-fólki í kringum sig.

Jón gekk sem kunnugt er úr þingflokki Vinstri grænna í vikunni. Hann hefur þó ekki tekið ákvörðun um hvert framhaldið verði hjá sér varðandi stjórnmálaþátttöku. Í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins gagnrýnir Jón störf ríkisstjórnarinnar og segir ágreining hafa verið innan þingflokks Vinstri grænna frá fyrsta degi.

Varðandi gagnrýni á Steingrím J. Sigfússon um að hann kjósi að hafa já-fólk í kringum sig segir Jón að fella hafi átt Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í prófkjöri VG í Suðvesturkjördæmi.

„Þó að allir hafi sama rétt til að bjóða sig fram, var öllum ljóst að það átti að koma Ögmundi út. Þannig að þetta var réttmæt gagnrýni. Steingrímur verður að svara þessu sjálfur, en ég held að það megi vel segja að dæmin tali sínu máli," segir Jón í Morgunblaðinu.

Hann segir sína nánustu samherja flesta hafa horfið á braut vegna ágreinings um vinnubrögð og stefnu flokksins.

„Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og allir vita hvernig komið var fram við Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þá miklu hugsjóna- og baráttukonu, sem að síðustu sagði af sér þingmennsku. Það þýðir ekkert að segja að þau hafi horfið á braut - af því bara," segir Jón sem ræðir frekar um Atla Gíslason síðar í viðtalinu.

„Hann (Atli Gíslason) hefur starfað í vinstri pólitík í áratugi, verið leiðandi í verkalýðsmálum, umhverfismálum og stutt félagsleg sjónarmið lögfræðilega sem málflutningsmaður með yfirburðarþekkingu og reynslu. Að hann skuli finna sig knúinn til að yfirgefa flokkinn ásamt fleirum sem ég nefndi áðan, sýnir að eitthvað er ekki í lagi. Það þýðir ekkert að halda öðru fram," segir Jón í viðtalinu.

„Hér var ráðist gegn fólki með mikla þekkingu og reynslu, baráttujöxlum sem segja: Hingað og ekki lengra!"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×