Innlent

Grundvallarbreytingar á íslenskum fjarskiptamarkaði

Þorgils Jónsson skrifar
Hefðbundin talsímaþjónusta er á hægu undanhaldi en gagnaflutningar á farsímaneti hafa stóraukist
Hefðbundin talsímaþjónusta er á hægu undanhaldi en gagnaflutningar á farsímaneti hafa stóraukist Mynd/ AFP

Þróun hefur verið hröð á íslenska fjarskiptamarkaðinum síðustu misseri og nú standa yfir umskipti á markaði þar sem áhersla fjarskiptafyrirtækjanna færist frá talsímaþjónustu yfir í gagnaflutninga.

Í nýrri skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem tekin er saman ýmiskonar tölfræði um fjarskiptamarkaðinn sést glögglega hversu hratt hlutirnir hafa þróast. Hefðbundin talsímaþjónusta er á hægu undanhaldi en gagnaflutningar á farsímaneti hafa stóraukist, meðal annars vegna þess að farsímar og spjaldtölvur eru að miklu leyti nýttar til að sækja myndir, myndbönd og sjónvarpsútsendingar.

Til dæmis kemur fram í skýrslunni að símtölum innan fastaneta fækkaði um tólf prósent á milli áranna 2010 og 2012. Úr tæpum 463.000 símtölum á ári niður í tæp 409.000 símtöl.

Á sama tímabili fjölgaði símtölum úr farsímum hér á landi lítillega, úr um það bil 399.000 símtölum árið 2010 upp í tæplega 413.000 símtöl árið 2012. Heildarfjöldi farsímaáskrifta fór á sama tíma úr 375.000 áskriftum upp í tæplega 400.000 áskriftir.

Gagnaflutningar um farsímanetið hafa hins vegar tvöfaldast og rúmlega það. farið úr 582.000 gígabætum árið 2010, upp í rúmlega 1.2 milljónir gígabæta á síðasta ári.

Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri fjarskiptafyrirtækisins Nova, segir í samtali við fréttastofu að þessi þróun hafi hafist árið 2007. Á síðasta ári hafi ákveðið stökk átt sér stað, en það eigi enn eftir að aukast stórum með bættri tækni.

"Á þessu ári munum við sjá öfluga 4G snjallsíma koma á markaðinn, sem styðja tíu sinnum meiri hraða en 3G snallsímar gera, þannig að hraðinn er alltaf að aukast og efni á netinu er verður í sífellt meira magni lifandi sjónvarpsefni en ekki að megninu til texti eins og er í dag. Símarnir eru svo sífellt að verða öflugri þannig að við erum bara að stíga okkar fyrstu skref í notkun netsins í farsímum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×