Íslenski boltinn

Segir Torfnesvöll langversta völlinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Daníel
David James, markvörður ÍBV, segir ekki á dagskránni að hætta knattspyrnuiðkun.

„Á meðan ég get sinnt bæði vinnunni og fótboltanum og það kemur niður á hvorugu mun ég halda áfram,“ segir David James í viðtali við Independant. James er í starfi sem sparkspekingur hjá BT sjónvarpsstöðinni auk þess að verja mark Eyjamanna.

Landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi hefur vakið athygli fyrir framgöngu sína með ÍBV í Pepsi-deildinni í sumar bæði hér heima og erlendis. James, sem spilaði sinn 1000. leik á dögunum og er 43 ára, fer á kostum í viðtalinu.

Þar kemur meðal annars fram að hann hafi misst af ágóðaleik Rio Ferdinand þar sem hann var veðurtepptur. Þá minnist hann skelfilegrar frammistöðu eins liðsfélaga síns hjá ÍBV í leik í sumar.

James segist hafa sagt við Hermann Hreiðarsson, þjálfara ÍBV, að hann vildi ekki sjá leikmanninn aftur á æfingum liðsins.

„Svo sá ég hann í ræktinni daginn eftir,“ segir James. Hann fékk þá að heyra að umræddur leikmaður hefði verið nýkominn af 14 tíma vakt þegar hann mætti í leikinn. Þá rifjar James upp æfingu fyrr í sumar þar sem leikmenn liðsins settu upp skilti í stað þess að spila fótbolta.

„Hermann sagði mér að koma mér að verki,“ segir James. Einn eftirminnilegasti leikur hans á tímabilinu var bikarleikur BÍ/Bolungarvíkur og ÍBV fyrir vestan.

„Við lentum á flugvelli í dal á Vestfjörðum. Fegurðin var ólýsanleg. Völlurinn var hins vegar, með örlitlu grasi, smá sandi og heilmikilli möl. Hann er án nokkurs vafa sá versti sem ég hef spilað á á ferlinum. Og ég hef spilað fótbolta áratugum saman.“

Viðtalið við James má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×