Innlent

Öll börn í borginni eiga að fá næringarríka máltíð

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Um 20 þúsund börn fá mat hjá borginni á leikskóla, í grunnskólum og á frístundaheimilum.
Um 20 þúsund börn fá mat hjá borginni á leikskóla, í grunnskólum og á frístundaheimilum. Mynd/Pjetur Sigurðsson
Verið er að þróa sameiginlegan gagnagrunn fyrir yfirmenn í skólamötuneytum Reykjavíkurborgar til að halda utan um hráefniskaup, matseðla og verð.

Markmiðið er að samræma hráefniskaup í hverfum borgarinnar og tryggja að öll börn í borginni fái sambærilega næringarríka máltíð í skólanum samkvæmt ráðleggingum embættis Landlæknis.

Helga Sigurðardóttir gæðastjóri mötuneytisþjónustu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir að kerfið sé í undirbúningi og þróun næstu þrjá mánuði.

„Markmiðið er ekki að allir skólar hafi sama matseðil og allir borði nákvæmlega það sama á hverjum einasta degi. Það er of mikil stýring. En í dag erum við ekki með nægilega yfirsýn um samsetningu matarins, næringargildi og skammtastærðir. Við viljum bæta það og stuðla að því að hráefnið í öllum skólum sé gott,“ segir Helga.

Í Reykjavík eru 90% allra grunnskólanema í mataráskrift í skólamötuneytum og alls eru 20 þúsund börn á leikskóla- og grunnskólaaldri sem fá mat úr mötuneytisþjónustu borgarinnar.

Yfirmenn hinna fjölmörgu mötuneyta Reykjavíkurborgar munu geta nýtt þennan sameiginlega gagnagrunn sem mun innihalda uppskriftir og matseðla er uppfylla orku- og næringarþörf barna miðað við aldur.

Sérhvert skólamötuneyti getur áfram matreitt að sínum hætti og haldið sínum sérkennum, en gagnagrunnurinn býður upp á aukna samvinnu matráða og fjölbreytni. Uppskriftir og matseðlar verða þannig þróaðir í samstarfi matráða og lögð áhersla á að þær uppskriftir sem eru vinsælar meðal barna verði áfram í boði og aðlagaðar til að mæta réttri næringarþörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×