Lífið

Fyrrverandi biskup myndskreytir bók

 Karl Sigurbjörnsson hefur haft það fyrir sið að föndra jóla- og afmæliskort fjölskyldunnar
Karl Sigurbjörnsson hefur haft það fyrir sið að föndra jóla- og afmæliskort fjölskyldunnar Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég hef alltaf haft tröllatrú á honum pabba sem teiknara,“ segir Guðjón Davíð Karlsson, betur þekktur sem Gói, um föður sinn, en þeir feðgar voru að gefa út bók sem nefnist Jólaandinn.

Guðjón Davíð skrifar en Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup Íslands og faðir Guðjóns, myndskreytti.

„Málið er að þegar við systkinin vorum ung þá sá hann alltaf um að búa til afmælisdúka fyrir okkur þegar við áttum afmæli, hann teiknar líka og föndrar afmælis- og jólakort í fjölskyldunni og er bara ofboðslega listrænn í sér,“ segir Gói og bætir við: „Þannig að ég bað hann um að myndskreyta þessa sögu og er bara virkilega ánægður með það að hann skyldi taka það að sér.“

Gói kveðst hafa gengið með söguna í maganum í einhvern tíma.

Hún fjallar um fjölskyldu sem er á fullu að undirbúa jólin. 

„Þetta er dæmigerð íslensk fjölskylda. Það eru að koma jól og allir stressaðir. Mamman er í prófum og pabbinn og allir uppteknir og endalaust verið að tala um jólaanda. Þannig að sonurinn fer að velta fyrir sér hvað þetta fyrirbæri sé: jólaandinn. Eina nóttina fer besti vinur hans, bangsinn Bjössi, á stúfana og reynir að finna þennan jólaanda.“

Gói lýsir bókinni sem hugljúfri sögu um jólaandann.

„Þetta er saga sem skiptir máli. Enginn æsingur eða fíflagangur, það er nóg af því,“ segir hann að lokum.

Úr jólaandanum Þessi teikning er eftir Karl og er úr nýrri bók þeirra feðga, Jólaandanum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.