Skoðun

Vísindafélag Íslendinga í 95 ár

Þórarinn Guðjónsson skrifar
Hinn 1. des. 1918 komu tíu kennarar við Háskóla Íslands á fund að boði prófessoranna Ágústs H. Bjarnasonar og Sigurðar Nordals og samþykktu að stofna félag til eflingar vísindastarfsemi í landinu. Það var stofndagur Vísindafélags Íslendinga. Tilgangurinn var að stofna félagsskap íslenskra vísindamanna, á öllum sviðum, til að efla vísindastarfsemi í landinu og styrkja stöðu vísinda í íslenskri menningu. Félagið hefur starfað undir þeim formerkjum síðan. Vísindafélag Íslendinga hefur gengið gegnum hæðir og lægðir á þeim áratugum sem liðnir eru frá stofnun þess. Samfara breyttum tíðaranda hefur félagið tekið nauðsynlegum breytingum sem miða að því að gera félagið áberandi í samfélagslegri umræðu um vísindaleg málefni.

Vísindafélag Íslendinga starfar óháð stofnunum og fræðasviðum og er því kjörinn vettvangur fyrir almenna umræðu um vísindi og hlutverk vísinda og fræða í samfélaginu. Félagið hefur breyst töluvert á síðustu árum og er nú opinn félagsskapur vísinda- og fræðimanna sem öðlast hafa akademíska þjálfun og stundað sjálfstæðar vísindarannsóknir. Meginhlutverk félagsins er að hvetja til umræðu um vísindaleg málefni hvort sem er í gegnum fræðsluerindi eða málþing, samskipti við stjórnmálamenn eða almenning. Félagið hefur staðið fyrir fjölda sérhæfðra sem og þverfaglegra málþinga um stöðu ungra vísindamanna, gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag, mikilvægi samkeppnissjóða, málþinga um ritstuld, loftslagsbreytingar, áhrif efnahagshruns á íslenskt samfélag og svo mætti lengi telja.

Hér á landi er fjöldi háskóla og rannsóknastofnana og hefur oft skort vettvang fyrir akademíska umræðu utan þeirra. Það er von stjórnar Vísindafélags Íslendinga að geta skapað grunn fyrir slíka umræðu og að stjórnvöld muni nýta sér þekkingu og reynslu félagsmanna við stefnumótandi ákvarðanir í málefnum vísinda í náinni framtíð.

Árin 95 og framtíðin

Vísindafélag Íslendinga hefur leikið mikilvægt hlutverk innan vísindasamfélagsins í áratugi, sérstaklega í tengslum við útgáfu og miðlun vísinda. Félagið er í sókn, og þörf er á að efla það enn frekar til að því sé kleift að vinna betur að því að styrkja stöðu vísinda. Þar er bæði litið til þess að efla starf og áhrif félagsins innanlands, á vísindasamfélagið og stjórnkerfið, sem og samfélagið í heild, og að auka þátttöku þess í samstarfi við erlend vísindafélög og akademíur, m.a. til þess að bera saman bækur og læra af þeim, og hafa áhrif á stefnumótun á alþjóðlegum vettvangi.
Skoðun

Sjá meira


×