Innlent

Verslunin knýr allar vélar hagkerfisins

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Ágúst Einarsson
Ágúst Einarsson
Verslun á Íslandi stendur undir fimmtungi hagkerfisins. Þetta er helsta niðurstaða skýrslunnar Hagræn áhrif verslunar sem Ágúst Einarsson, doktor í hagfræði, og Axel Hall, hagfræðingur við Háskólann í Reykjavík, hafa unnið.

„Umfang verslunar er miklu meira í íslensku efnahagslífi en áður hefur verið talið. Verslunin er að leggja 20% til landsframleiðslunnar á ári hverju og það vinna um 38 þúsund manns í greininni. Þær mikla skatttekjur sem fara í gegnum verslunina koma líka á óvart," segir Ágúst um skýrsluna.

Þá bætir Ágúst við að verslun á Íslandi hafi ekki notið sannmælis til þessa. „Það eimir kannski enn eftir af tilfinningum gagnvart einokunarverslun Dana því menn hafa stundum litið svo á að verslun sé einhver óþarfa milliliður en það er þverstæða. Verslun er frekar smurningin sem knýr allar vélar efnahagslífsins."

Loks segir Ágúst að rannsóknir á verslun leiði fljótt í ljós hversu mikilvægt sé fyrir hana að fá að starfa hindrunarlaust. „Öll höft eins og við höfðum hér fyrir nokkrum áratugum eru mikill bölvaldur, ekki bara fyrir verslunina heldur einnig lífskjör fólksins í landinu. Og nú erum við með gjaldeyrishöft sem eru mikil vá og vond fyrir íslenskt efnahagslíf."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×