Innlent

Desemberuppbótin bjargar hjá mér jólunum

Hjörtur Hjartarson skrifar
Desemberuppbótin bjargar hjá mér jólunum, segir sextug kona sem hefur verið atvinnulaus í rúm tvö ár. Formaður Samfylkingarinna segir vont fjárlagafrumvarp orðið aðeins skárra.

Um 240 milljónir króna fara í að greiða atvinnulausum desemberuppbót og verða þeir fjármunir sóttir í starfsendurhæfingarsjóð. Þá féll ríkisstjórnin frá þeirri hugmynd að rukka sjúklinga um legugjald á sjúkrahúsum sem átti að færa ríkissjóði 290 milljónir. Þegar var búið að falla frá hugmyndum um lækkun hæstu barnabóta sem hefði sparað ríkissjóði um 300 milljónir króna. Stjórnarandstaðan gagnrýndi allar þessar fyrirætlanir harðlega. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að fjárlagafrumvarpið væri enn meingallað þrátt fyrir að þessar breytingar.

"Vont fjárlagafrumvarp með vitlausa forgangsröðun hefur aðeins skánað. Okkur hefur tekist að vinda ofan af ýmsm af þeim verstu þáttum sem birtust í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar."

Jóhanna Kristín starfar sem sjálfboðaliði hjá Fjölskylduhjálp
Óskipt desemberuppbót til atvinnulausra nemur um 52 þúsund krónum en minnst um 13 þúsund krónum, allt eftir því hversu lengi viðkomandi hefur verið án atvinnu. Ljóst er að desemberuppbótin kemur til með að nýtast mörgum. Jóhanna Kristín Hauksdóttir starfar sem sjálfboðaliði hjá Fjölskylduhjálpinni en hún hefur verið atvinnulaus í tvö og hálft ár. Hún segir að uppbótin bjargi hreinlega hjá sér jólunum.

"Hún skiptir mig öllu máli. Nú get ég keypt jólagjafir handa börnunum og barnabörnunum sem ég hefði ekki getað öðruvísi."

Jóhanna er sextug, vann áður við uppvask og þrif á hóteli í Reykjavík. Hún segir enga vinnu að fá.

"Ég veit ekki hvað bíður mín. Maður verður bara að vona að einhver vilji mig í vinnuna en kennitalan er víst svolítið vandamál. Aldurinn er orðinn það mikill að það vill mann enginn," segir Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×