Innlent

Egyptaland: Réttarhöldum yfir Mohammed Morsi frestað

Hrund Þórsdóttir skrifar
Mohammed Morsi, sem herinn bolaði frá völdum í Egyptalandi í sumar, var í morgun fluttur með þyrlu til Kaíró, þar sem hann var leiddur fyrir dómara ásamt fjórtán öðrum félögum í forystusveit Múslimska bræðralagsins. Þeim er gert að sök að hafa staðið fyrir ofsóknum á hendur andstæðingum sínum og hvatt stuðningsmenn til ódæðisverka.

Morsi, sem ekki hefur sést opinberlega frá valdatöku hersins í júlí, neitaði að klæðast fangabúningi þegar honum var lesin ákæran og mætti í borgaralegum klæðnaði. Hann hafnaði öllum ásökunum, sagðist vera réttkjörinn forseti og fullyrti að réttarhöldin væru lögleysa. Draga ætti yfirmenn hersins fyrir dómara vegna landráða. Létu sakborningarnir ófriðlega og urðu hróp og köll í dómssal til þess að dómari varð að fresta réttarhöldunum.

Stuðningsmenn Morsis hvöttu fólk til að mótmæla og safnaðist fólk víða saman í dag. Gríðarlegur viðbúnaður var vegna réttarhaldanna og stóðu um tuttugu þúsund her- og lögreglumenn vaktina í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×