Fótbolti

Sigurður Ragnar: Eitt stig gefur okkur alla möguleika í heimi í næstu leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Mynd/Daníel
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, var ánægður með sínar stelpur eftir jafntefli á móti Noregi í kvöld. Íslenska liðið kom til baka á móti góðu liði og tryggði sér sitt fyrsta stig á EM.

„Þetta var frábær seinni hálfleikur. Við unnum okkur inn í leikinn á móti góðu liði í lokakeppni. Þetta voru allt stór skref fyrir okkur. Í seinni hálfleik sköpuðum við okkur slatta af færum og í nokkur skipti var ég búinn að sjá boltann inni. Sem betur gerði Margrét Lára þetta virkilega vel sem og Sara Björk að fá vítið. Þetta var frábærlega gert hjá þeim og mikill karkater að koma til baka," sagði Sigurður Ragnar.

Sara Björk Gunnarsdóttir átti frábæran leik og var valin besti maður vallarins af mótshöldurum.

„Sara Björk er rosalega mikilvæg fyrir okkur. Hún á það fyllilega skilið að hafa verið valin besti maður leiksins. Hún er drifkrafturinn í liðinu og prímusmótor á miðjunni. Hún vinnur mikið af boltum og hefur bætt sig mikið í að skila boltanum frá sér.Hún er sterk í loftinu og er bara orðin frábær leikmaður," sagði Sigurður Ragnar.

Íslenska liðið tapaði 1-2 fyrir Noregi síðasta haust í leik sem þróaðist á svipaðan hátt. Sá Sigurður Ragnar þetta að vera þróast eins þegar markið ætlaði ekki að detta í seinni hálfleiknum.

„Mér leið svolítið þannig eins og markið ætlaði ekki að koma. Við höfum spilað svona leiki þar sem við höfum komið til baka, sett pressu á þær en ekki fengið neitt út úr leiknum. Þetta var líka svona á móti Noregi í síðustu keppni. Þá lentum við undir, sóttum og sóttum en náðum ekki að skapa okkur nógu mikið. Í dag náðum við að skapa nokkur færi en ég var alltaf að bíða eftir þvi að boltinn færi inn," sagði Sigurður Ragnar.

Landsliðsþjálfarinn kom mörgum á óvart með byrjunarliði sínu í leiknum í kvöld.

„Maður kemur alltaf eitthvað að óvart og getur ekki alltaf haft þetta eins. Við gerðum nokkrar breytingar. Ég var ánægður með liðið í dag og ég var ánægður með leikmennina sem komu inn á. Ég var líka virkilega ánægður með leikmennina sem voru fyrir utan og fengu ekki að spila í dag. Það var mikil samkennd í liðinu og frábær andi í hópnum. Það er eitt það eftiminnilegast við þessa ferð hingað til hvað er búinn að vera mikill samtakamáttur og góður andi í liðinu. Það eru allar innstilltar á það að ná árangri saman," sagði Sigurður.

„Þetta er mikilvægt stig. Næsti leikur er á móti Þjóðverjum og að fara í hann með núll stig væri mjög slæmt. Eitt stig gefur okkur alla möguleika í heimi í næstu tveimur leikjum til þess að tryggja okkur inn í átta liða úrslitin. Ég held að við þurfum fjögur stig til að vera örugg þangað en þrjú stig gætu dugað. Ef allir leikir detta fullkomlega fyrir okkur þá gæti mögulega eitt stig dugað. Sá möguleiki er fyrir hendi en okkur vantar fleiri stig til að okkur líði vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×