Innlent

Fékk arðgreiðslu daginn fyrir eignatilfærslu

Valur Grettisson skrifar
Vísar því á bug að hafa hagnast með ólögmætum hætti.
Vísar því á bug að hafa hagnast með ólögmætum hætti. Fréttablaðið/GVA

Kristján Arason fékk greiddar 34 milljónir í arð vegna hlutabréfa í Kaupþingi daginn áður en samþykkt var að færa allar skuldir hans og hlutabréf yfir á eignarhaldsfélagið 7 Hægri. Þetta er meðal þess sem kom fram í málflutningi lögmanns slitastjórnar Kaupþings fyrir Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Stjórnin stefndi Kristjáni og krefst þess að hann endurgreiði 534 milljónir króna sem hann fékk til hlutabréfakaupa. Þessu hafnar Kristján alfarið.

Kristján óskaði eftir því árið 2007 við Ingólf Helgason, þáverandi forstjóra Kaupþings, að færa bæði skuldir sínar og hlutabréf, tæplega 100 þúsund hluti í Kaupþingi, yfir á einkahlutafélagið. Dráttur varð á yfirfærslunni og að lokum leitaði Kristján til Hreiðars Más, sem þá var forstjóri bankans. Hann féllst á gjörninginn í janúar 2008.

Alls hagnaðist Kristján um 100 milljónir króna á hlutabréfunum eftir að hann hafði fært þau yfir á einkahlutafélagið, samkvæmt málflutningi slitastjórnarinnar. Sjálfur sagði Kristján að hann hefði viljað færa skuldina og bréfin yfir á einkahlutafélagið vegna þess að hann vildi aðskilja verðbréfaviðskipti sín og heimilisbókhaldið.

Einkahlutafélag Kristjáns fór í þrot árið 2010 en gerðar voru árangurslausar kröfur í félagið fyrir um tvo milljarða króna. Lögmaður Kristjáns hafnaði því svo alfarið að Kristján hefði hagnast með ólögmætum hætti á verðbréfaeigninni. Hann hefði hagnast gífurlega hefði hann selt bréfin mánuði síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×