Skoðun

Fyrirspurn um læknanám

Reynir Tómas Geirsson skrifar
Í Fréttablaðinu 24.10. sl. var greint frá fyrirspurn þingmannsins Vigdísar Hauksdóttur varðandi læknanám, sem sjá má í þriggja setninga heild sinni á vef Alþingis. Þar er spurt um hagkvæmni þess að nýta Sjúkrahúsið á Akureyri til náms í læknisfræði. Svarið er að það hefur verið gert í áratugi. Undirritaður var m.a. þar fyrir löngu í sínu námi, og stóð að því árið 2003 sem deildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands að gerður var formlegur samningur við sjúkrahúsið um þetta.

Um leið voru stofnaðar tvær kennarastöður læknadeildar við sjúkrahúsið. Þakkarvert væri ef í nýrri forgangsröðun ríkisins sem þingmaðurinn stýrir, yrði það enn betur undirbyggt með viðeigandi fjármunum.

Þá er spurt hvort stofnanir þar geti staðið undir læknanámi. Rektor Háskólans á Akureyri og forseti læknadeildar H.Í. hafa svarað nú þegar að svo sé ekki. Sjúkrahúsið á Akureyri er mikilvægt, en þjónar einungis um 13-14% þjóðarinnar eða um 45.000 manns og stendur það engan veginn undir slíku námi. Þingmaðurinn hefði getað fengið upplýsingar um þetta hjá læknadeild H.Í. og hjá öllum kennurum þar.

Loks er spurt hvort ekki sé „rétt að fjölga læknanemum á ári hverju um helming, úr 48 í 96“ (sem er reyndar tvöföldun). Með árlegri fjölgun um helming yrðu læknanemar um 1.000 eftir aðeins sex ár. Væri þar vel að verki staðið, en sennilega þarf þá 8 milljóna þjóð til þess að standa undir menntuninni. Leiðin er ekki vænleg til að „bæta stöðu heilbrigðismála hér á landi“ eins og segir í fyrirspurninni.

Vandinn

Vandi læknamönnunar í landinu felst ekki í fjölda þeirra sem læra læknisfræði, heldur í nauðsyn á langdvöl lækna erlendis vegna sérnáms að loknu almennu læknaprófi og í kjörum og aðstæðum sem ekki eru hvati til að snúa á ný til heimalandsins úr sérnáminu. Allir vita að bæta þarf kjör, vinnuaðstæður og tækjabúnað víða í heilbrigðisgeiranum, en einkum er það brýnt á Landspítalanum.

Flestir gera sér grein fyrir að þetta mun ekki takast til frambúðar ef ekki verður byggt nýtt háskólasjúkrahús. Hins vegar er nú meginatriði að bæta verulega möguleika á sérnámi lækna á Landspítalanum, sem er það sjúkrahús hér á landi sem er eitt nægilega stórt til að geta staðið að slíku samkvæmt evrópskum stöðlum. Þannig mundu læknar síður flytjast úr landi, nema þá í skemmri tíma sem varið væri erlendis til að bæta við það sem læra má hérlendis. Í nokkrum helstu sérgreinum læknisfræðinnar er unnt að nánast fullmennta sérfræðilækna hér á landi. Fram til þessa hefur það einungis gerst svo nokkru nemi í heimilislækningum og geðlækningum. Því má breyta, en bætt mönnun á Landspítalanum er forsenda þess. Þar þarf að byrja. Nýjar byggingar og nútímalegri aðstæður fylgja svo í kjölfarið og ljóst að það gerist í áföngum.

Kannski er hagræðingarleið fólgin í því að spara vinnu fólks á Alþingi, í ráðuneytum og ríkisstofnunum með því að leita haldgóðra upplýsinga með öðrum hætti en fyrirspurnum á Alþingi.




Skoðun

Sjá meira


×