Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Þór - Fram 1-1

Ólafur Haukur Tómasson á Þórsvelli skrifar
mynd/eva björk
Fram mætti á Þórsvöllinn þar sem þeir spiluðu við heimamenn í Þór í rigningunni á Akureyri. Liðin skildu jöfn, 1-1, í frekar bragðdaufum leik. Ármann Pétur Ævarsson kom heimamönnum yfir en Hólmbert Aron Friðjónsson jafnaði fyrir gestina.

Fyrri hálfleikurinn var afar bragðdaufur. Besta og í raun eina alvöru marktækifæri fyrri hálfleiks kom strax í upphafi þegar Almarr Ormarsson slapp bakvið vörn Þórs en skot hans fór rétt framhjá markinu. Fyrri hálfleikurinn einkendist hvað mest af misheppnuðum og löngum sendingum, tæklingum og hnoði.

Mesta fjörið í fyrri hálfleiknum var líklega þegar dómari leiksins, Magnús Þórisson, stöðvaði leikinn og hljóp að varamannaskýli Þórs til að fá hjálp við að festa samskiptabúnaðinn sinn á sig eftir að hann hafði losnað. Halldór Áskelsson, aðstoðarþjálfari Þórs, sá sér leik að borði og reyndi að líma það utan um allt höfuð hans en Magnús afþakkaði það góða boð og endaði á að skipta um tæki við aðstoðardómara.

Skömmu síðar kom Magnús aftur fram í sviðsljósið þegar hann skipaði Andra Hjörvari Albertssyni, varnarmanni Þórs, að fara útaf vellinum og skipta um undirbuxur því þær voru ekki í sama lit og stuttbuxurnar. Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, var ekki kátur með atvikið og reif upp buxur Andra til að sýna Magnúsi að buxurnar voru samlita og hleypti Magnús Andra aftur inn á. Það var mjög lýsandi fyrir fyrri hálfleikinn að þetta var eitt það markverðasta úr fyrri hálfleiknum!

Það lifnaði aðeins yfir leiknum í seinni hálfleiknum og á 54. mínútu leit fyrra mark leiksins dagsins ljós. Hlynur Atli Magnússon tók aukaspyrnu langt úti á velli, boltinn fór beint í gegnum vörn Fram og á kollinn á Ármanni Pétri Ævarssyni sem stýrði boltanum í netið og heimamenn komnir 1-0 yfir.

Á 69. mínútu jafnaði Hólmbert Aron Friðjónsson leikinn fyrir Fram með góðum skalla eftir hnitmiðaða hornspyrnu Sam Hewson.

Gestirnir sóttu aðeins í sig veðrið það sem eftir lifði leiks en hvorugu liðinu tókst að skapa sér almennileg færi og skora mörk. Lokatölur enduðu því með sanngjörnu 1-1 jafntefli.

Leikmönnum liðana gekk illa að ná almennilegri fótfestu á sleipum vellinum og hvorugt liðið náði einhverju alvöru spili sín á milli og einkendist þessi leikur mikið af löngum og háum sendingum fram völlinn.

Páll Viðar Gíslason: Við verðum að berjast áfram

Þór gerði fjórða jafnteflið í röð. Er Þór hægt og rólega að tryggja stöðu sína í deildinni?

„Ef ég tek tvo síðustu leiki þá er ég ánægður með framlagið í okkar leik þó ég sé ekki alltaf ánægður með það hvernig við erum að spila. Þegar við erum án bolta þá finnst mér við vera að styrkjast og erum ekki lengur að leka eins mörgum færum á okkur og áður," sagði Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, eftir leikinn gegn Fram.

Páll hefur lengi talað um að finna rétta mótvægið í varnar- og sóknarleik Þórsliðsins. Eftir fjögur jafntefli í röð, finnst Páli hann vera að ná þessi mótvægi?

„Þetta gengur svona upp og ofan. Þegar við erum að leka inn mörkum þá er erfitt að þurfa að skora tvö, ég held að við höfum skorað í öllum leikjunum í sumar og ekki hægt að kvarta undan því en „balance-ið" er að ná takti hinu meginn að vera ekki að leka inn. Við þurfum að reyna að halda markinu okkar hreinu og halda áfram að skora hinu meginn. Það gengur erfiðlega að gera það en við verðum að berjast áfram og byrja á réttum enda.

„Við eigum Stjörnuna úti næst og við reynum að ná einhverju út úr þeim leik. Svo eru tveir heimaleikir gegn Keflavík og ÍA sem eru að berjast í þessu með okkur og það er tilhlökkunarefni framundan hjá okkur, það er spenna og þannig viljum við hafa þetta," bætti Páll við.

Ríkharður Daðason: Bjóðum hættunni heim

Miklar róteringar voru á leikmannahópi Fram frá því í síðasta leik. Er mikið um meiðsli í hópi Fram?

„Já, það er of mikið um meiðsli. Við vorum án þriggja hafsenta og þar að auki vorum við með Jordan Halsman í banni, Kristinn Ingi var líka meiddur og svo fór Daði útaf líka. Það er töluvert um forföll hjá okkur þannig að við erum komnir í þunnt en það kemur maður í manns stað og við spiluðum fínan leik.

Ég man ekki til þess að Þór hafi skorað færi úr opnum leik og við vissum að við þyrftum að vera grimmir og sterkir gegn þeim í föstum leikatriðum. Markið þeirra kemur í raun eftir frekar óhefðbundið fast leikatriði, frábær aukaspyrna frá Hlyn, en það á ekki að gerast að aukaspyrna af vallarhelmingi andstæðinga fari í gegnum hjarta varnarinnar og endi í fríjum skalla.

Það var í raun eina augnablikið í leiknum sem við vorum ekki á verði en gerðum gott í að koma okkur aftur inn í leikinn," sagði Ríkharður Daðason, þjálfari Fram eftir leikinn.

„Ég verð að vera það [sáttur með stigið] og slíta okkur kannski frá þeirri umræðu að við séum komnir niður í fallbaráttu en á meðan við fáum ekki fleiri stig og liðin í kringum okkur eru að plokka í stig þá erum við klárlega í þessari baráttu. Við hefðum viljað vinna en eftir að hafa lent undir og lítið eftir af leiknum þá erum við sáttir með stigið," sagði Ríkharður.

Fram varð bikarmeistari fyrir ekki löngu síðan en hefur í kjölfarið tapað gegn Stjörnunni og Keflavík og nú gert jafntefli við Þór. Bjóst Ríkharður ekki við betri frammistöðum og úrslitum í kjölfar bikarsigursins?

„Við vonuðumst til að fá fleiri stig. Við vorum ekki að spila neitt vondan leik gegn Stjörnunni eftir þann leik, við vorum ekki góðir í fyrri hálfleik en unnum okkur inn í leikinn. Gegn Keflavík þar voru einstaklingsmistök sem kostuðu okkur mikið og okkur hefur gengið illa að „koma þessu heim" og neita liðum um þessi mörk og á meðan við fáum þau á okkur þá bjóðum við hættunni heim," sagði Ríkharður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×