Lífið

Steindi leikur vafasamann ólympíugullhafa

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
Steindi Jr. leikur ólympíugullverðlaunahafa í hestaíþróttum sem er ekki allur þar sem hann er séður. Nýtt verk í leikstjórn Þorsteins Bachman verður samlesið í Tjarnarbíó í kvöld.

Steinþór Hróar Steinþórsson eða Steindi Jr. er í aðalhlutverki í leikritinu Jóreykur sem leikstýrt er af Þorsteini Bachman. Höfundur verksins er Bergur Ebbi Benediktsson. Verkið segir frá knapanum Hallgrími Birni sem er ólympíugullhafi í hestaíþróttum en er með leyndarmál í pokahorninu.

„Um leið og hann kemur heim þá fer ýmislegt að koma í ljós og það dettur inn nett ,panic' og smá ,chaos'. Þetta er mjög skemmtilegt og það kemur í ljós hann er ekki allur þar sem hann er séður. Þessi karakter er skemmtilega brenglaður og það er mjög gaman að leika hann,“ segir Steindi.

„Verkið er frábært og það gerir mitt verk dálítið auðveldara. Það þarf nánast bara að lesa þetta þar sem þetta er svo spennandi,“ segir leikstjórinn Þorsteinn Bachman.

Sýna verkið á frumstigi

Óhætt er að segja að leikhópurinn fari nokkuð óvenjulega leið í að kynna verkið. Samlestur fer fram á verkinu í Tjarnabíó í kvöld sem verður opinn öllum. Auk Steinda leika Halldór Halldórsson (Dóri DNA), Svandís Dóra Einarsdóttir og Þorbjörg Helga Dýrfjörð í verkinu. Sú síðastnefnda fór með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Málmhaus sem frumsýnd var fyrir skömmu.

„Það er kannski svolítið óvenjulegt að bjóða mikið af fólki að koma og sjá verkið svona snemma. Það gefur fólki tækifæri til að sjá verkið á frumstigi og taka jafnvel þátt í því að þróa það áfram,“ segir leikskáldið Bergur Ebbi.

„Þetta getur líka orðið gott fyrir okkur. Margir sýna fullunnið verk í fyrsta sinn og svo kemur gagnrýnin sem allir eru svo hræddir við. Með þessu móti getum við fengið gagnrýni á það sem við erum komin með og gert svo enn betur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.