Innlent

Læra að gera sushi á landsmóti

Boði Logason skrifar
Frá Samfés-ballinu í Laugardalshöll í fyrra.
Frá Samfés-ballinu í Laugardalshöll í fyrra. Mynd/Anton Brink
Um 400 unglingar alls staðar að af landinu hafa verið á Hvolsvelli um helgina á landsmóti Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, þar sem þeir hafa meðal annars lært að gera sushi. Framkvæmdastjórinn segir að landsmótið hafi gengið mjög vel.

Markmið landsmótsins er að stjórnir í unglingaráðum félagsmiðstöðva landsins hafi vettvang til að mynda tengsl og fá nýjar hugmyndir sem hægt er að nýta í starfi félagsmiðstöðvanna. Eftir helgi verða teknar saman niðurstöður þess og sendir ályktanir á ráðuneyti , sveitarstjórnir og fjölmiðla.

Björg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samfés, segir að á föstudag hafi krakkarnir kosið í ungmennaráð Samfés, og síðan hafi verið haldin kvöldvaka þar sem söngvarinn og gleðigjafinn Friðrik Dór hafi haldið uppi stuðinu. Í gær var svo smiðjuvinna.

„Þetta var tvískipt, þau fengu annars vegar að velja sér smiðjur sem voru léttari eins og leiklist, tónlist, læra að gera sushi, og allskonar útivist og svo hins vegar voru þau í smiðjum þar sem var meðal annars rætt um jafnrétti kynjanna, valdeflingu og mannréttindi.“

Og í dag fer fram landsþing, þar sem allir koma saman og ræða um allt á milli himins og jarðar.

„Þar eru þau að ræða um sitt nær umhverfi og sitt ytra umhverfi, menntamál, kynlíf, áfengis- og vímuefnaneyslu, ýmsar forvarnir og framkomu fullorðinna til ungmenna og öfugt.“

Og þau hafa gott af þessu?

„Ég myndi segja það, þau kvarta ekki og eru ótrúlega glöð - þetta er stór og fallegur hópur sem við höfum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×