Innlent

„Sýnist stjórnin ekki hafa trú á fjárlagafrumvarpi sínu“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar Mynd/GVA
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir ummæli forsætisráðherra um fjárlagafrumvarpið verða sífellt óskiljanlegri.

Árni Páll vísar til ummæla Sigmundar Davíðs á fundi kjördæmisráðs Framsóknarflokksins í NA kjördæmi sem Vikudagur fjallar um og ummæla í Vikulokum í gær á Rás eitt.

Þar segir Sigmundur Davíð meðal annars að Alþingi þurfi að skoða forgangsröðunina í frumvarpinu og gæti ákveðið að setja meira fjármagn í heilbrigðisþjónustuna en það sem lagt er til.

Árni Páll undrar sig á því hversu fljótt forsætisráðherra gefst upp á að tala fyrir fjárlagafrumvarpinu.

„Hann segir að nú muni þingið endurskoða forgangsröðunina. Maður gerir ráð fyrir að forgangsröðun meirihluta birtist í frumvarpinu og hann sé þá nú að boða að stjórnarandstaðan forgangsraði. Venjan er sú að stjórnin leggi fram fjárlagafrumvarp sem hún trúir á en mér sýnist að þessi stjórn hafi það ekki," segir Árni Páll í samtali við Vísi.

Á facebook-síðu sinni segir Árni Páll stjórnarandstöðuna vera alveg til í að ákveða forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu en bætir við: „en [við] veltum þá fyrir okkur hvort meirihlutinn sé þá tilbúinn til að afla tekna frá vinum sínum, t.d. með hækkun veiðigjalds? Og ef svo er, til hvers er þá ríkisstjórnin?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×