Innlent

Færri sjö ára geta lesið sér til gagns

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Niðurstaða lesskimunarinnar er sú lakasta frá 2005. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Niðurstaða lesskimunarinnar er sú lakasta frá 2005. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Fréttablaðið/Vilhelm
Síðastliðið vor gátu 67 prósent sjö ára stúlkna í grunnskólum Reykjavíkur lesið sér til gagns en einungis 59 prósent drengja.

Tveir af hverjum fimm sjö ára drengjum í grunnskólum höfuðborgarinnar voru ófærir um að lesa sér til gagns þótt þeir kynnu að vera læsir eða geta stautað sig frá orði til orðs.

Samkvæmt niðurstöðum lesskimunarinnar getur mikill munur verið á milli skóla. Í þeim þremur skólum þar sem staðan er verst geta frá 20 og upp í 25 prósent nemenda lesið sér til gagns. Í skólanum þar sem börnin stóðu sig best gátu 94 prósent lesið sér til gagns. Nöfn skólanna eru ekki birt.

Heildarniðurstaða lesskimunarinnar meðal nemenda í öðrum bekk grunnskólanna síðastliðið vor er sú að 63 prósent geta lesið sér til gagns og er niðurstaðan sú lakasta frá árinu 2005. Þá gátu 60 prósent lesið sér til gagns en skimun var gerð að afloknu kennaraverkfalli. Þróunin hafði verið heldur upp á við og í fyrra gátu 69 prósent lesið sér til gagns.

Skólastjórum hefur verið falið að kynna niðurstöður lesskimunarinnar bæði fyrir nemendum og foreldrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×