Innlent

Mikill verðmunur á smokkum og lúsasjampói

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á ýmsum vörum sem seldar eru í apótekum, mánudaginn 13. maí. Meðal þess sem var skoðað voru vörur eins og bossakrem, sólarvörn, fæðubótarefni, smokkar og lúsarsjampó.

Farið var í 18 apótek en Árbæjarapótek, Lyfjaborg og Apótek Ólafsvíkur neituðu þátttöku í könnuninni.

Lægsta verðið var oftast að finna hjá Apóteki Hafnarfjarðar og Lyfjaveri, í 6 tilvikum af 35. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Skipholts Apóteki í 7 tilvikum af 35. Oftast var 25-50% verðmunur á hæsta og lægsta verði á milli apótekanna.

Ekkert apótekanna sem skoðuð voru átti allar vörurnar sem til skoðunar voru.

Mestur verðmunur í könnuninni var á Durex smokkum – extra safe (10 stk.) sem voru dýrastir á 1.443 kr. hjá Apóteki Garðabæjar en ódýrastir á 860 kr. hjá Apóteki Vesturlands en það er 583 kr. verðmunur eða 68%. Minnstur verðmunur var á Purity herbs, unaðsolíu (125 ml.) sem var dýrust á 2.890 kr. hjá Siglufjarðar Apóteki en ódýrust á 2.566 kr. hjá Urðarapóteki en það gerir 324 kr. verðmun eða 13%.

Allt að 60% verðmunur á lúsasjampói

Verðlagseftirlitið skoðaði tvær tegundir af lúsasjampói, Licener og Hedrin (100 ml.). 60% verðmunur var á Licener lúsasjampói sem var til hjá 15 af 18 söluaðilum, dýrast var það á 3.323 kr. hjá Apótekaranum, Lyf og heilsu og Skipholts Apóteki en ódýrast á 2.077 kr. hjá Apóteki Hafnarfjarðar. 47% verðmunur var á Hedrin lúsasjampó sem var til hjá öllum söluaðilum, dýrast var það á 3.030 kr. hjá Lyfjavali, Álftarmýri og Apóteki Suðurnesja en ódýrast á 2.060 kr. hjá Siglufjarðar Apóteki.

Af öðrum vörum sem skoðaðar vöru má nefna að fíkniefnapróf fyrir þvagsýni frá Portfarma var dýrast á 2.914 kr. hjá Skipholts Apóteki en ódýrast á 2.023 kr. hjá Apóteki Hafnarfjarðar, sem er 891 kr. verðmunur eða 44%. NOW eve konuvítamín (90 stk.) var dýrast á 4.589 kr. hjá Lyfju en ódýrast á 3.540 kr. hjá Austurbæjar Apóteki, það er verðmunur upp á 1.049 kr. eða 30%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×