Lífið

Stafróf af dýrum

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Þetta fólk er tengt fjölskylduböndum og eru aðstandendur leiksins. Frá vinstri: Bergrún Íris Sævarsdóttir, myndlistar- og blaðakona, Andri Ómarsson tómstundafræðingur, Arnþór Snær Sævarsson tölvunarfræðingur og Elísabet Ólafsdóttir, bókmenntafræðingur og vefstýra. mynd/úr einkasafni
Þetta fólk er tengt fjölskylduböndum og eru aðstandendur leiksins. Frá vinstri: Bergrún Íris Sævarsdóttir, myndlistar- og blaðakona, Andri Ómarsson tómstundafræðingur, Arnþór Snær Sævarsson tölvunarfræðingur og Elísabet Ólafsdóttir, bókmenntafræðingur og vefstýra. mynd/úr einkasafni
Í dag er kynnt ókeypis viðbót við leikinn Stafina okkar sem kom út í sumar. Bæst hefur við myndasafn sem sýnir dýr af öllum stærðum og gerðum en erfitt reyndist að finna dýr fyrir alla stafina.„Þetta var virkilega skemmtileg áskorun og við erum ánægð með útkomuna,“ segir Elísabet Ólafsdóttir, bókmenntafræðingur og vefstýra, sem skapaði hinn bráðskemmtilega og lærdómsríka leik Stafina okkar ásamt fjölskyldu sinni og ljær honum meðal annars rödd sína.

Leikurinn er fyrir spjaldtölvur og snjallsíma og hefur slegið í gegn hjá íslensku smáfólki á síðustu mánuðum. Því vilja aðstandendur hans sýna þakklæti sitt í verki með gefins uppfærslu á leiknum í dag, á degi íslenskrar tungu.

„Fyrsta myndasafnið sýndi börnum ýmiss konar orð en nú hefur bæst við stórt myndasafn með alls konar dýrum. Erfiðast var að finna dýr sem byrjar á stafnum „i“ en Vísindavefurinn kom til bjargar með dýrin iglur, iktur og ildýr. Ildýrin urðu fyrir valinu enda skemmtilega myndræn bifdýr alsett litlum hárum,“ útskýrir Elísabet.

Stafurinn „x“ olli einnig smávegis höfuðverk en niðurstaðan var að nota orðið uxi.

„Þá ekki eins og í útihátíðinni Uxa, heldur sem annað orð yfir tudda eða tarf,“ segir Elísabet og hlær. „Íslenskan er rík af fallegum og fróðlegum orðum og óþarfi að börnin okkar hafi bara úr erlendum spjaldtölvuleikjum að velja. Leikurinn Stafirnir okkar er nú orðinn tvöfalt skemmtilegri og okkur fannst kjörið að kynna þessa skemmtilegu og ókeypis viðbót við leikinn á degi íslenskrar tungu,“ segir Elísabet og tekur fram að leikurinn sé þegar kominn út fyrir Android en þegar þetta er skrifað er Apple að leggja lokahönd á rýnina. „Við krossum bara putta og vonum að Apple haldi sig við settan dag. Það er ekkert smá spennandi!“



Fyrir jólin er væntanlegur nýr leikur frá hópnum sem ber nafnið Tölurnar okkar.

„Í honum tökumst við á við tölustafina með skemmtilegum myndskreytingum,“ segir Elísabet um fróðlegan leik sinn og skemmtilega barnaskemmtun.

Stafirnir okkar fást í Appstore og á Google Play. Þeir sem eiga leikinn nú þegar fá í dag dýrapakkann gefins og þeir sem kaupa leikinn eftir uppfærslu fá tvo stafapakka í stað eins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.