Fótbolti

Obi Mikel og félagar komnir í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Obi Mikel
John Obi Mikel Mynd/NordicPhotos/Getty
John Obi Mikel og félagar í nígeríska landsliðinu í fótbolta eru komnir í úrslitaleik Afríkukeppninnar eftir 4-1 stórsigur á Malí í undanúrslitaleik í Suður-Afríku í dag en þetta er í fyrsta sinn í þrettán ár sem Nígería spilar til úrslita í keppninni.

Nígería komst síðast í úrslitaleikinn árið 2000 þegar liðið tapaði fyrir Kamerún í vítakeppni en Nígería var síðast Afríkumeistari árið 1994. Chelsea-mennirnir John Obi Mikel og Victor Moses voru báðir í byrjunarliði Nígeríu í leiknum, Moses lagði upp fyrsta mark liðsins og Obi Mikel það síðasta.

Elderson Echiejile og Brown Ideye skoruðu fyrstu mörkin á fimm mínútna kafla í fyrri hálfleik og Momo Sissoko skoraði síðan sjálfsmark eftir skot Emmanuel Emenike í lok fyrri hálfleiks. Varamaðurinn Musa Ahmed innsiglaði síðan sigurinn í seinni hálfleik eftir stungusendingu frá John Obi Mikel. Malí-liðið minnkaði muninn með marki Cheick Fantamady sextán mínútum fyrir leikslok.

Nígería mætir annaðhvort Burkína Faso eða Gana í úrslitaleiknum en seinni undanúrslitaleikurinn fer fram seinna í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×