Íslenski boltinn

Guðjón Pétur hættur hjá Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Pétur Lýðsson í leik með Val.
Guðjón Pétur Lýðsson í leik með Val. Mynd/Ernir
Guðjón Pétur Lýðsson hefur spilað sinn síðasta leik með Val og verður ekki með liðinu í Pepsi-deildinni næsta sumar. Knattspyrnufélagið Valur birti fréttatilkynningu á heimasíðu sinni í kvöld. Samkomulag þetta er gert í bróðerni og óska báðir aðilar hvor öðrum alls hins besta í framtíðinni.

Guðjón Pétur Lýðsson var í stóru hlutverki á miðju Valsliðsins undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar en náði sér ekki á strik síðasta sumar eftir frábært tímabil árið á undan. Magnús Gylfason er núna tekinn við liði Vals.

Guðjón Pétur var á milli tímabilanna 2011 og 2012 lánaður til sænsku meistarana í Helsingborgs IF og tók þátt í að vinna tvöfalt í deild og bikar haustið 2011. Guðjón hélt ekki áfram hjá sænska liðinu og kom aftur til Vals og lék 20 leiki með liðinu síðasta sumar.

Guðjón Pétur er 25 ára miðjumaður sem kom til Vals frá Haukum fyrir 2011-tímabilið en hann var í stóru hlutverki hjá Haukum þegar þeir voru í Pepsi-deildinni sumarið 2010.



Yfirlýsingin á heimasíðu Vals:

Knattspyrnufélagið Valur og Guðjón Pétur Lýðsson hafa komist að samkomulagi um að rifta leikmannasamningi sem í gildi er á milli félags og leikmanns.

Knattspyrnufélagið Valur þakkar Guðjóni Pétri fyrir framlag hans og þjónustu við félagið undanfarin ár og óskar honum alls hins besta í framtíðinni. Félagið er stolt af þeim framförum sem Guðjón Pétur hefur tekið á meðan hann hefur verið í Val og gaman hefur verið fylgjast með honum vaxa og dafna.

Guðjón Pétur þakkar Knattspyrnufélaginu Val fyrir þann tíma sem hann var í röðum félagsins og þau tækifæri sem félagið hefur gefið honum. Öll umgjörð, aðstaða og allt í kringum þjálfun hefur verið til fyrirmyndar og yfirgefur Guðjón Pétur félagið með góðar minningar.

Samkomulag þetta er gert í bróðerni og óska báðir aðilar hvor öðrum alls hins besta í framtíðinni.

Knattspyrnufélagið Valur og Guðjón Pétur Lýðsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×