Fótbolti

Englendingar unnu Brasilíumenn á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard fagnar hér sigurmarki sínu í kvöld.
Frank Lampard fagnar hér sigurmarki sínu í kvöld. Mynd/NordicPhotos/Getty
Englendingar fögnuðu sínum fyrsta sigri á Brasilíumönnum í 23 ár í kvöld þegar enska landsliðið vann 2-1 sigur á Brasilíu í vináttulandsleik á Wembley í kvöld.

Englendingar voru búnir að leika átta leiki í röð á móti Brasilíu án þess að fagna sigri en síðasti sigurleikurinn kom árið 1990. Þetta var líka aðeins fjórði sigur Englands á Brasilíu í sögunni.

Frank Lampard skoraði sigurmarkið eftir stoðsendingu frá Wayne Rooney sem skoraði fyrra markið. Joe Hart varði víti frá Ronaldinho á 19. mínútu í stöðunni 0-0 en vítið var dæmt fyrir hendi á Jack Wilshere..

Wayne Rooney kom Englendingum í 1-0 á 26. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skoti Theo Walcott en varamaðurinn Fred jafnaði eftir fjórar mínútur í seinni hálfleik eftir að hafa komið inn á í hálfleik.

Sigurmark Frank Lampard kom á 60. mínútu leiksins með laglegu skoti en þetta var 27. markið hans fyrir enska landsliðið. Lampard kom inn á sem varamaður í hálfleik.

Ashley Cole lék sinn hundraðasta landsleik í kvöld og bættist þá í hóp með þeim Peter Shilton (125 leikir), David Beckham (115), Bobby Moore (108), Bobby Charlton (106), Billy Wright (105) og Steven Gerrard (101).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×