Fótbolti

Búrkína Fasó komið í úrslit Afríkukeppninnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsmenn Búrkína Fasó fagna hér sigrinum í kvöld.
Liðsmenn Búrkína Fasó fagna hér sigrinum í kvöld. Mynd/AFP
Það verða Búrkína Fasó og Nígería sem mætast í úrslitaleik Afríkukeppninnar í fótbolta í Suður-Afríku en það var ljóst í kvöld eftir að Burkína Fasó sló Gana út í vítakeppni. Búrkína Fasó og Nígería voru saman í riðli í byrjun keppninnar.

Þetta er í fyrsta sinn sem Búrkína Fasó kemst í úrslitaleik keppninnar en liðið verður án lykilmanns í leiknum því Jonathan Pitroipa fékk að líta rauða spjaldið í undanúrslitaleiknum í kvöld.

Liðin skildu jöfn 1-1 eftir venjulegan leiktíma og ekkert var skorað í framlengingunni. Búrkína Fasó vann síðan 3-2 í vítakeppni.

Þetta er í annað skiptið á þremur árum sem Gana dettur úr leik í vítakeppni á stórmóti í Suður-Afríku því Ganamenn töpuðu í vítakeppni á móti Úrúgvæ í átta liða úrslitum á HM 2010.

Mubarak Wakaso kom Gana yfir þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 13. mínútu leiksins en Aristides Bance jafnaði leikinn eftir klukkutímaleik.

Ganamenn klikkuðu á fyrstu vítaspyrnu sinni sem og tveimur síðustu. Daouda Diakite tryggði þjóð sinni sæti í úrslitaleiknum í fyrsta sinn í sögunni með því að verja lokaspyrnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×