Fótbolti

Kolbeinn: Vonbrigði að spila ekki betur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn í baráttu við Igor Denisov í kvöld.
Kolbeinn í baráttu við Igor Denisov í kvöld. Mynd/AP
Blaðamaður Vísis fann sig knúinn til að slá á létta strengi þegar hann heyrði hljóðið í Kolbeini Sigþórssyni eftir leik í kvöld.

Kolbeinn var nefnilega fyrirliði íslenska landsliðsins í 2-0 tapinu gegn Rússlandi í kvöld en hann bar fyrirliðabandið í fjarveru Arons Einars Gunnarssonar.

„Hvað segir Kolbeinn kafteinn?" spurði blaðamaður. Kolbeinn hló kurteisislega á móti og sagðist svo hafa verið stoltur af því að hafa fengið að leiða íslenska liðið út á völlinn í kvöld.

„Það var mikill heiður," bætti hann við. „Það hefði auðvitað verið skemmtilegra að vinna leikinn. Þetta var ekki nógu gott hjá okkur í dag."

„Það eru þó einhverjir jákvæðir punktar sem við getum tekið með okkur. Til dæmis gerðum við fá mistök í vörn í fyrri hálfleik og gáfum heilt yfir fá færi á okkur."

„En Rússarnir voru skynsamir og biðu eftir því að við gerðum mistök. Þeir voru mjög yfirvegaðir," sagði hann.

Kolbeinn játar því að það hafi verið vonbrigði að fá ekki meira úr sóknarleiknum, sérstaklega miðað við liðsuppstillinguna. „Það var erfitt að fá boltann í lappirnar og þeir náðu mjög vel að loka á okkar spil. Það reyndist því erfitt að skapa eitthvvað af viti."

„Við hefðum viljað skapa fleiri færi, þó svo að fengum einhverja sénsa í leiknum. En það vantaði upp á síðustu sendinguna eða skotið. Sem betur fer var þetta æfingaleikur en við verðum að gera betur ef við ætlum að vinna einhverja leiki á þessu ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×