Innlent

Þurfa að leggja harðar að sér en karlarnir

Hjörtur Hjartarson skrifar

Í nýútkominni ársskýrslu Ríkislögreglustjóra kemur fram að starfsmenn lögreglunnar voru á síðasta ári 759. 96 þeirra eru konur eða 12,6 prósent samanborið við 11,7 prósent árið áður.

Ef litið er á einstakar stöður innan lögreglunnar sést að flestar konur eru lögregluþjónar eða 33. Sautján konur eru rannsóknarlögreglumenn og sextán eru lögreglufulltrúar. Fáar konur gegna hinsvegar stjórnunarstöðum hjá lögreglunni. Ein kona er aðalvarðstjóri, engin er aðstoðarvarðstjóri, ein kona er aðstoðaryfirlögregluþjónn en engin gegnir stöðu yfirlögregluþjóns.

Eyrún Eyþórsdóttir hefur starfað hjá lögreglunni í sex ár. Hún segir marga halda að starf lögreglunnar felist einna helst í því að stilla til friðar í miðborginni um helgar og til þess þurfi stóra og sterka karlmenn. Hvort tveggja sé rangt.

"Það er mín skoðun allavega að starfið henti ekki síður konum heldur en körlum. Og það er ekkert sem sýnt hefur sig í sögunni eða af reynslu kvenna í lögreglunni sem sýnir annað en það."

Brottfall kvenna úr stéttinni hefur lengi verið mun meira en hjá körlum. Eyrún telur að það megi rekja til þess hversu fáar konur nái að klífa upp metorðastigann innan lögreglunnar.

"En það er svona tilfinning um að konur þurfi að leggja miklu meira á sig til að fá sömu virðingu eða komast á sama stall og strákarnir. Það er vissulega merki um að það megi skoða þarna viðhorf, allavega einhverra."

Sjálf er Eyrún óviss um eigin framtíð innan lögreglunnar.

"Ég verð að fara að sjá það séu einhverjir möguleikar. Hingað til ég hef ekkert endilega séð mikið af þeim. Það þarf eitthvað að breytast ef ég ílengist."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×