Lífið

Tónleikar til heiðurs Joni Mitchell

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tónlistarkonurnar Kristjana Stefánsdóttir og Ragnheiður Gröndal koma fram á tónleikunum.
Tónlistarkonurnar Kristjana Stefánsdóttir og Ragnheiður Gröndal koma fram á tónleikunum. mynd/einkasafn
Margir þekktustu söngvarar þjóðarinnar koma fram. „Þetta er upprunalega hugmynd frá Röggu Gröndal, hún hefur gengið með hana síðan í haust,“ segir Kristjana Stefánsdóttir tónlistarkona sem kemur fram á heiðurstónleikum í kvöld.

Afmælisheiðurstónleikarnir eru til heiðurs Robertu Joan Anderson, sem er betur þekkt sem Joni Mitchell og af því tilefni ætla nokkrir af fremstu flytjendum og listamönnum þjóðarinnar að koma saman og halda upp á afmælið hennar. „Við förum yfir feril hennar sem er ansi langur og tökum lög frá hinum ýmsu tímabilum, alveg frá fyrstu plötunum til nýjustu platna hennar,“ bætir Kristjana við.

Á tónleikunum koma eingöngu fram söngvarar sem eru miklir aðdáendur Joni Mitchell. „Við erum öll miklir aðdáendur og höfum hlustað mikið á hana.“ Fram koma þau Andrea Gylfadóttir, Björn Jörundur Friðbjörnsson, Egill Ólafsson, Kristjana Stefánsdóttir, Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir Lay Low, Margrét Eir Hönnudóttir, Ragnheiður Gröndal, Sigríður Thorlacius og Valdimar Guðmundsson. Hljómsveitarstjóri er Guðmundur Pétursson, Guðmundur Óskar spilar á bassa og Ragnheiður Gröndal leikur á píanó.

„Við höfum æft undanfarna daga, þetta gengur rosalega vel og ég hlakka mikið til.“

Tónleikarnir fara fram í Iðnó og eru miðar seldir við innganginn. Húsið verður opnað kl. 19.30 en tónleikarnir hefjast kl. 21.00.

„Við lofum notalegri og fallegri kvöldstund,“ segir Kristjana að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.