Íslenski boltinn

„Verð Stjörnumaður þar til ég dey“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tryggvi Sveinn Bjarnason (t.v.) og Bjarki Páll Eysteinsson.
Tryggvi Sveinn Bjarnason (t.v.) og Bjarki Páll Eysteinsson. Mynd/Samsett
Knattspyrnukapparnir Bjarki Páll Eysteinsson og Tryggvi Bjarnason munu ekki spila með Stjörnunni í Pepsi-deild karla á næstu leiktíð.

Bjarki Páll, sem er 27 ára og uppalinn hjá Stjörnunni, fékk fá tækifæri í liðinu í sumar. Hann hefur spilað með Garðabæjarliðinu í þremur efstu deildum Íslandsmótsins. Leikirnir eru 127 í deild og bikar.

„Þjálfarinn er með ákveðin framtíðarplön sem ég passaði ekki inn í og ætlar að gefa ungum efnilegum mönnum séns,“ segir Bjarki Páll við Vísi um viðskilnaðinn við Stjörnuna og samskipti sín við þjálfarann Rúnar Pál Sigmundsson.

„Ég fór á fund með Rúnari og niðurstaðan var sú að ég væri ekki í hans framtíðarplönum. Fundurinn var á góðu nótunum enda er Rúnar Páll algjör fagmaður og klárlega rétti maðurinn til að taka við Stjörnunni. Maður með gríðarlegan metnað,“ bætir kantmaðurinn eldfljóti við.

„Á endanum er það ákvörðun þjálfarans hverjir spila og hverjir ekki en þegar öllu er á botnin hvolft þá snýst þetta ekki um mig eða þjálfarann heldur félagið. Og við elskum báðir þetta félag.,“ segir Bjarki sem mun áfram styðja Garðbæinga.

„Það eru forréttindi að spila í bláu treyjunni og ég verð Stjörnumaður þangað til ég dey.“

Tryggvi Sveinn, sem er uppalinn hjá KR, hefur spilað með Stjörnunni frá árinu 2008. Hann á að baki 112 leiki með Stjörnunni í deild og bikar.

Forráðamenn Stjörnunnar höfðu lýst yfir áhuga á að halda Tryggva í sínum röðum. Varnarmaðurinn sterki, sem var í hlutverki varamanns stærstan hluta liðins sumars, var hins vegar ekki sáttur við samningstilboð Garðbæinga og ætlar að leita á önnur mið.

Samkvæmt heimildum Vísis sýndi Leiknir í Reykjavík mikinn áhuga á að fá Tryggva lánaðan í sumar. Þá vildu Keflvíkingar fá Bjarka Pál lánaðan áður en lokað var fyrir félagaskipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×