Fótbolti

Ítalía náði í bronsið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Ítalía hafði betur gegn Úrúgvæ í baráttunni um bronsverðlaunin í Álfukeppninni í Brasilíu í kvöld. Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 2-2 og var ekkert mark skorað í framlengingunni. Markvörðurinn Gianluigi Buffon var hetja Ítalanna í vítaspyrnukeppninni en þeir Diego Forlan, Martin Cacares og Walter Gargano úr liði Úrúgvæ klikkuðu allir á sínum spyrnum.

Davide Astori kom Ítalíu yfir þegar hann fylgdi eftir skoti Alessandro Diamanti í fyrri hálfleik en Edinson Cavani jafnaði metin með hnitmiðuðu skoti eftir góða sókn.

Bæði mörk síðari hálfleiks voru glæsileg - beint úr aukaspyrnu. Fyrst skoraði Diamanti og svo Cavani en spyrna hans var sérlega glæsileg.

Úrslitaleikur Brasilíu og Spánar hefst svo klukkan 22.00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×