Innlent

Mikill vöxtur í sölu farsíma

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Sala á farsímum hefur aukist um tæp 70 prósent miðað við sama tíma í fyrra.
Sala á farsímum hefur aukist um tæp 70 prósent miðað við sama tíma í fyrra. Mynd/úr safni

Sala á farsímum jókst um tæp 70 prósent, eða 68,7 prósent, í apríl miðað við sama tíma á síðasta ári og sala á tölvum um 40,9 prósent á sama tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Mest jókst sala á þessum tveimur vörum. Sala á fötum jókst um 5,5 prósent í apríl miðað við sama tíma í fyrra en verð á fötum hækkaði um 0,7 prósent frá sama mánuði fyrir ári. Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að verð á skóm hafi lækkað um 2,4 prósent síðan í apríl í fyrra en velta skóverslunar jókst um 1,7 prósent á sama tíma.

Sala áfengis minnkaði um átta prósent í apríl miðað við sama tíma í fyrra en verð á áfengi hefur hækkað um 1,3 prósent síðan í fyrra. Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að almennt séu ekki miklar breytingar í kaupmætti og neyslu. Þannig var kaupmáttur launa í mars 1,5 prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt mælingu Hagstofunnar.

Nýjasta þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir 2,5 prósenta vexti í einkaneyslu á þessu ári. Fram kemur í tölum Seðlabankans að greiðslukortavelta heimilanna var 5,5 prósentum meiri í apríl en í sama mánuði í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×