Innlent

Geta ekki fjölgað sætum - "Verðum viðbúin bæði snjó og frosthörku“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Þessi mynd er af Laugardalsvelli um vetur í frosti.
Þessi mynd er af Laugardalsvelli um vetur í frosti. mynd/Arnþór Birkisson
„Það er ekkert sem leyfir okkur að fjölga sætum,“ segir Jóhann G. Kristinsson, vallarstjóri á Laugardalsvelli en þar mun Ísland keppa í nóvember, heimaleik sinn í umspili um laust sæti á Heimsmeistaramótinu sem fer fram í Brasilíu næsta sumar.

Hann segir að völlurinn taki 9700 manns í sæti en að ekki sé hægt að bæta við bráðabirgðasætum. Það sé bæði bannað samkvæmt reglum Evrópusambandsins og reglum FIFA.

„Á morgun munum við hittast og fara yfir þá möguleika sem okkur standa til boða um hvað þarf að gera fyrir leikinn svo Laugardalsvöllur verði sem bestur til að spila á í nóvember. Það er ákveðnir möguleikar í stöðunni en við öndum með nefinu,“ segir Jóhann.

Hann segir að þetta verði skoðað á næstu tveimur til þremur dögum, helsti óvinurin sé alltaf hugsanlegt frost og það er það sem þurfði að verjast. Þau fara yfir það ásamt ráðgjöfum hvernig best sé að verjast frostinu.

„Leikurinn mun fara fram annaðhvort 15. eða 19. nóvember og það geta verið erfiðar aðstæður þá, en við getum líka verið heppin. Það eru ákveðnir möguleikar í stöðunni, það þýðir ekkert að sökkva sér í langtíma veðurspár. En við verðum að vera viðbúin bæði snjó og frosthörku,“ segir Jóhann.

Hann segir að fyrst og fremst sé skemmtilegt að þessi frábæri árangur hafi náðst með þessu unga og flotta liði. „Við skulum ekki gleyma því að þetta er stærsta stund íslenskrar fótboltasögu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×