Innlent

Margir ósjálfbjarga af áfengisneyslu yfir hátíðarnar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Þórarinn Tyrfingsson segir nítján manns hafa lagst inn á Vog á Þorláksmessu og aðfangadag.
Þórarinn Tyrfingsson segir nítján manns hafa lagst inn á Vog á Þorláksmessu og aðfangadag.
Tveir læknar á bráðamóttöku Landspítalans segja töluvert um það að fólk þurfi læknisaðstoð vegna áfengisneyslu yfir hátíðarnar.

„Það er leiðinlegt að segja það en þetta eru mest áfengistengd vandamál,“ segir annar læknanna. „Það er allavega mín tilfinning.“

Hinn læknirinn tekur í sama streng og segir alltaf mikið um slík tilfelli, líka um jól. Aðspurður hvers eðlis veikindin séu aðallega segir hann eitthvað um það að fólk fái áfengiseitrun. „En svo er líka töluvert um það að fólk sé bara hreinlega ósjálfbjarga af áfengisneyslu.“

Erfiður árstími

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, tekur undir með læknunum og segir nítján manns hafa lagst inn á Vog á Þorláksmessu og aðfangadag.

„Þessi árstími er náttúrlega erfiður,“ segir Þórarinn og er fjöldinn í ár að hans sögn fremur óvenjulegur.

„Þetta fólk kom allt á okkar göngudeild og var svo illa haldið að við gátum ekki vísað því frá og því var það lagt inn á sjúkrahúsið,“ segir Þórarinn og bætir því við að um sé að ræða bæði útigangsfólk og fjölskyldufólk.

„Eftir áramót kemur svo yfirleitt önnur sveifla og er þá meira um fólk sem hefur frestað meðferð yfir jól og áramót og er þá í mörgum tilfellum að koma í fyrsta skipti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×