Innlent

Slegist um að komast í hóptíma í World Class

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Slegist var um að komast í hóptíma þegar World Class í Laugum opnaði í morgun á öðrum degi jóla. Örtröð var í stöðinni fram eftir degi og ljóst að margir ætluðu sér að brenna jólasteikinni með hraði.

Eflaust voru einhverjir sem fóru illa af ráði sínu yfir jólahátíðina og borðuðu sig á gat. Því voru margir sem nýttu daginn í dag til að skora jólasteikina á hólm og skella sér í World Class í Laugum. Það var hreinlega barist um að komast í hóptíma í morgun.

Að sögn Önnu Lindar Þórðardóttur, móttökustjóra í World Class, þá kom til handalögmála þegar ljóst var að ekki gætu allir fengið pláss í hóptímum morgunsins. Yfir 100 manns þurftu frá að hverfa, flestir ósáttir með sitt hlutskipti.

„Þetta var ekki fallegt,“ sagði Anna Lind meðal annars í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Fljótlega upp úr hádegi var stöðin orðin smekkfull af fólki og vel var tekið á því.

Annar dagur í jólum er einn stærsti dagur ársins í líkamsræktarstöðinni og áttu einhverjir hreinlega erfitt með að finna sér hlaupabretti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×