Innlent

Yfirmaður íþróttadeildar býr frítt í íbúð RÚV

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Athygli vakti þegar Kristín reyndi að reka ljósmyndara Fréttablaðsins af velli á handboltaleik sem RÚV hafði sýningarrétt á.
Athygli vakti þegar Kristín reyndi að reka ljósmyndara Fréttablaðsins af velli á handboltaleik sem RÚV hafði sýningarrétt á. mynd/hilmar þór guðmundsson
Kristín Harpa Hálfdánardóttir, yfirmaður íþróttadeildar RÚV, býr frítt í húsi á Vatnsendahæð sem RÚV hefur umráða- og ráðstöfunarrétt yfir. Hún gegnir hlutverki „staðarhaldara“, en í frétt DV um málið kemur fram að hún búi í húsinu ásamt manni sínum og börnum, og hafi búið þar í rúm þrjú ár án þess að greiða leigu.

Aðspurð segir Kristín Harpa að staðarhaldara þurfi í húsinu út af „öryggishlutverki“. „Það er bara að fylgjast með stórum sal sem er þarna, sem er fullur af dóti frá RÚV, það þarf að fylgjast með öryggiskerfinu og brunakerfinu og svo er þarna dísilvél, sem þarf að fylgjast með og starta reglulega, sem er vararafstöð fyrir RÚV,“ segir Kristín Harpa í samtali við DV.

Hún segir að hvorki hún né eiginmaður sinn fái greidd laun fyrir að vera staðarhaldarar, en þau fluttu inn í íbúðina þegar húsvörður RÚV flutti úr henni. Kristín er ekki skráð til heimilis í íbúðinni heldur í húsi foreldra sinna sem búa skammt frá.

Í fréttinni kemur fram að ekkert í opinberum upplýsingum, til dæmis símaskránni eða þjóðskrá, tengi Kristínu Hörpu beint við húsið. Þá sé ekkert í opinberum upplýsingum um húsið sem segi til um hversu stórt það er í fermetrum og Kristín Harpa veit ekki hversu stór íbúðin sem hún býr í er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×