Innlent

„Þetta er guðsgjöf“

Egill Fannar Halldórsson skrifar
Örvar Þór Guðmundsson.
Örvar Þór Guðmundsson.
„Ég var að gæla við 300.000 krónur þegar ég lagði af stað með þetta,“ segir Örvar og hlær en söfnun hans fyrir langveik börn sem Vísir greindi frá í gær lauk núna í hádeginu og söfnuðust alls 1.409.000 krónur. Hann hafði í bjartsýni vonast til að safna fyrir tveimur fjölskyldum en ætlar nú að skipta söfnunarféinu óskertu milli 8 fjölskyldna.

Söfnunin fór eingöngu fram á fésbókarsíðu Örvars og gekk út á peningagjöf einstaklinga. „Þetta er ótrúlegur árangur og munu fjölskyldur langveikra barna njóta góðs af gjafmildi ykkar,“ segir Örvar í þakkarræðu á fésbókarsíðu sinni.

Örvar fékk aðstoð frá Umhyggju til þess að velja fjölskyldur sem voru í virkilegum vanda „Það eru rosalega erfiðar aðstæður hjá þessu fólki þar sem börnin eru mjög veik og foreldar geta ekki unnið. Eftir hrun hefur því fjölgað mikið að fólk með langveik börn hringi inn í leit að hjálp. Það er dásamlegt fyrir þetta fólk að vita að það getur keypt í jólamatinn og kannski jólagjafir líka,“ segir Ragna K. Marínósdóttir, framkvæmdastjóri Umhyggju.

„Þetta er guðsgjöf,“ er haft eftir fjölskylduföður einnar fjölskyldunnar.

Ragna segir það vera dásamlegt að fólk sé á eigin forsendum að hjálpa þeim sem minna mega sín en alls lögðu 229 einstaklingar söfnuninni lið.

Engin ákvörðun hefur verkið tekin um hvort Örvar safni aftur fyrir fjölskyldur langveikra barna á næsta ári en hann gefur í skyn að söfnunin sé hefð sem er komin til að vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×