Innlent

Ráðuneytin verða að skera meira niður

Heimir Már Pétursson skrifar
Barnabætur verða ekki skertar eins og til stóð en farið verður fram á að einstök ráðuneyti skeri meira niður hjá sér í fjárlögum næsta árs. Áfram er stefnt að hallalausum fjárlögum.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar komu saman til óformlegs fundar í stjórnarráðshúsinu seinnipartinn í dag til að ræða ýmsar tillögur inn í aðra umræðu fjárlaga sem menn stefna enn á að fari fram á fimmtudag.

Það vakti athygli á Alþingi í dag þegar forsætisráðherra lýsti því yfir að barnabætur yrðu ekki skertar á næsta ári eins og formaður fjárlaganefndar og fjármálaráðherra höfðu lýst yfir um síðustu helgi að stæði til.



Heimilin í landinu bíða eftir ákvörðunum ríkisstjórnarinnar til að geta gert áætlanir fyrir næsta ár. Er eitthvað annað sem varðar fjárhag heimilanna sem þau geta beðið spennt eftir?

„Auðvitað er eðlilegt að fólk velti þessu fyrir sér. Þess vegna verður oft mikil umræða um mál í samfélaginu, í fjölmiðlum,  sem eru jafnvel bara til skoðunar í fjárlagavinnunni,“ segir forsætisráðherra.

Það muni ýmislegt annað en barnabæturnar breytast fyrir umræðuna á fimmtudag.

„Ég hugsa að það verði gerðar ýmsar breytingar en allar miða þær að því að spara á sem hagkvæmastan hátt og ná í tekjur á eins hagkvæman hátt líka,“ segir Sigmundur Davíð. Meginmarkiðið sé að ná viðsnúningi í heilbrigðismálunum og hallalausum fjárlögum.



Bjarni, yfirlýsing forsætisráðherra um barnabæturnar vakti athygli í dag. Þú hafðir sagt að þær yrðu skertar. Hvað hefur breyst frá því um helgina?



„Það sem hefur verið að gerast undanfarna daga er að við höfum verið að skoða alla kosti sem við stöndum frami fyrir,  til þess að tryggja markmiðið um að bæta við í heilbrigðisþjónustunni í landinu. Setja þrjá til fjóra milljarða í heilbrigðisþjónustuna án þess að fórna markmiðinu um hallalaus fjárlög,“ segir fjármálaráðherra.

Og það hafi tekist m.a. með auknum kröfum um niðurskurð í einstökum ráðuneytum.

„Lang mikilvægast auðvitað núna í þinginu er að við erum að fara að setja inn tuttugu milljarða skuldaniðurfellingu milli umræðna, áður en fjárlagafrumvarpið verður afgreitt. Við erum líka að bæta við hátt í fjórum milljörðum í heilbrigðismálin og þetta ætlum við að gera án þess að fórna markmiðinu um að skila hallalausum fjárlögum,“ segir Bjarni. Það séu stóru tíðindin í fjárlagafrumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×