Innlent

Segir að forsætisráðherra hafi reynt að villa um fyrir þingheimi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að forsætisráðherra hafi reynt að villa um fyrir þinginu þegar hann sakaði Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, um rangfærslur í umræðum á Alþingi í gær.

Helgi vísaði í svar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar á Alþingi í gær. Þar sagði Sigmundur að Árni væri að gefa sér rangar forsendur í umræðum um niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar.

Helgi tók málið upp á Alþingi í dag.

„Það setur slæman blett á störf þingsins að í stað þess að eiga efnislega umræðu við þingmenn grípur hæstvirtur forsætisráðherra ítrekað til þess að saka aðra þingmenn um ósannindi. Hálfu verra er það þegar að í ljós kemur að sá sem í þeim deilum fer með rangt mál er hæstvirtur forsætisráðherra í ræðustól Alþingis,“ sagði Helgi. „Þetta gerðist síðast hér í gær þegar hann sagði að tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun barnabóta væru rangar getgátur hjá háttvirtum þingmanni Árna P. Árnasyni. Nú hefur það komið fram að það sem hæstvirtur forsætisráðherar sagði þingheimi að væru rangar getgátur var formleg skrifleg tillaga ríkisstjórnar hans sjálfs til fjárlaganefndar alþingis stílað á formann hennar Vigdísi Hauksdóttur og sent úr fjármálaráðuneytinu eins og segir í upphafi minnisblaðsins, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands.“

Helgi sakaði forsætisráðherra um að reyna að villa um fyrir þingheimi.

„Það að forsætisráðherra ítrekað ásaki aðra þingmenn um það að fara hér með rangt mál og augljósa reynir að villa um fyrir þingheimi í þeirri orðræðu sinni og kallar það rangar getgátur sem eru skrifleg bréf hans eigin ríkisstjórnar til þingsins. Það er málefni sem ég tel að hæstvirtur forseti verði að láta til sín taka og sé algjörlega nauðsynlegt að sé rætt hér á vettvangi formanna þingflokka,“ sagði Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×