Innlent

Skelfilegt sifjaspellsmál skekur Ástralíu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Nýja Suður-Wales.
Nýja Suður-Wales. mynd/getty
Barnaverndaryfirvöld í Ástralíu hafa greint frá því þegar þau tóku fjölda barna af stórfjölskyldu í afskekktum dal í Nýju Suður-Wales í fyrra.

Um er að ræða eitt óhuggulegasta barnaníðsmál í sögu Ástralíu, og í frétt Daily Telegraph um málið er það sagt með verstu tilfellum sifjaspella sem gerð hafa verið opinber.

Fjórar kynslóðir innræktunar hafa valdið úrkynjun og er meirihluti barnanna sagður alvarlega þroskaskertur. Sum þeirra eru með skerta sjón og heyrn, flest voru vannærð, með sveppasýkingu á fótum, og ófær um að þrífa sig. Þá voru þau fæst fær um að tjá sig með orðum.

Alls fann lögregla fjörutíu einstaklinga, börn og fullorðna, sem tilheyra fjölskyldunni og bjuggu þeir í tveimur hjólhýsum, tveimur kofum og nokkrum tjöldum. Fólkið hafði ekki aðgang að rennandi vatni og rusl lá á víð og dreif. Salerni voru ekki til staðar og börnin voru skítug og illa hirt.

Talið er að fólkið hafi flutt sig reglulega á milli sveita til þess að koma í veg fyrir að yfirvöld hefðu uppi á því. Upp komst um málið þegar yfirvöldum var tilkynnt að það byggju börn í hlíðum dalsins sem gengju ekki í skóla.

Nú hefur komið í ljós að langalangamma og -afi fólksins voru systkini. Börnin sem fundust voru ýmist afkvæmi feðgina, systkina eða frændsystkina og höfðu flest yngri börnin verið kynferðislega misnotuð af þeim eldri.

Hluti barnanna er nú í umsjá fósturfjölskyldna og önnur eru vistuð á stofnunum. Þau fá að hafa takmörkuð samskipti við foreldra sína og systkini undir eftirliti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×