Innlent

Fjögur óvænt andlát á árinu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Öryggi sjúklinga á Landspítalanum hefur verið í umræðunni undanfarin misseri en eins og fram kom í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær þá leiða fjölmörg óhöpp til dauða á ári hverju.

Í aðsendri grein eftir Auðbjörgu Reynisdóttur, markþjálfa og hjúkrunarfræðing, sem birtist í Fréttablaðinu í gær kemur fram að 600 manns verða fyrir varanlegu tjóni sökum læknamistaka og eru óhöppin samtals 2500 á ári. 

Alls leiði 170 læknamistök til dauða á ári hverju. Auðbjörgu fékk uppgefnar umræddar  tölur á ráðstefnu um öryggi sjúklinga í Hörpu þann 3. september.

Þessar tölur eiga ekki við nein rök að styðjast hér á landi og er raunin sú að aðeins hafa fjórir einstaklingar látið lífið það sem af er ári vegna óvæntra atburða. Þetta kemur fram í starfsemisupplýsingum LSH sem komu út í gær.

Um er að ræða tímabilið frá janúar til nóvember á árunum 2012 og 2013. Árið 2012 létust 6 einstaklingar vegna óhappa á sama tímabili.

Tölurnar sem Auðbjörg talar um eru frá erlendri rannsókn og  yfirfærðar á Ísland. Þær eru því ekki marktækar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×