Innlent

Grænlendingar vilja stórt hafsvæði norðan Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Svæðið er milli Svalbarða og Jan Mayen utan 200 mílna lögsögu Grænlands.
Svæðið er milli Svalbarða og Jan Mayen utan 200 mílna lögsögu Grænlands.
Ríkisstjórn Danmerkur í samstarfi við ríkisstjórn Grænlands hefur lagt fram kröfu til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um að stórt hafsvæði utan 200 mílna lögsögunnar út af norðaustur Grænlandi skuli teljast til landgrunns Grænlands. Svæðið er norðan Jan Mayen, milli Grænlands og Svalbarða, og er um 62 þúsund ferkílómetrar, eða 60% af stærð Íslands. Krafan byggir á því að landgrunnið sé hluti af Austur-Grænlandshrygg, og því náttúrulegt framhald af Grænlandi.

Svæðið gæti reynst efnahagslega mikilvægt í framtíðinni. Þannig hafa Grænlendingar þegar boðið út olíuleit við austur Grænland á svæði sem er álíka norðarlega en innan lögsögumarkanna.

Kort sem fylgir kröfugerðinni sýnir Austur-Grænlandshrygg og svæðið afmarkað.
Danska stjórnin hefur áður fyrir hönd Grænlendinga lagt fram kröfu um landgrunnið suður af Grænlandi. Skarast hún að hluta við kröfu sem Íslendingar hafa gert til landgrunnsins suðvestur af Íslandi og einnig við kröfu sem Kanadamenn hafa gert um landgrunn austur af ströndum Kanada.


Tengdar fréttir

Kröfur um hafsbotn fyrir Grænland skarast við kröfur Íslands

Danmörk, sem fer með utanríkismál Grænlands, hefur skilað greinargerð um kröfur sínar vegna ytri marka hafsbotns Grænlands utan 200 sjómílna fyrir landsgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Kröfurnar skarast við kröfur Íslands og Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×