Innlent

Vantrú vill að lögreglan biðjist afsökunar

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Matthías Ásgeirsson í Vantrú.
Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Matthías Ásgeirsson í Vantrú. Mynd/365
Samtökin Vantrú sendu frá sér yfirlýsingu og fara í henni fram á opinbera afsökunarbeiðni frá lögregluembættinu vegna ummæla lögreglumanns í frétt stöðvar tvö um hatursglæp gegn mosku.

Í frétt Stöðvar 2 að kvöldi 29. nóvember um dreifingu afskorinna svínahausa á lóð fyrirhugaðrar mosku var haft eftir ónefndum lögreglufulltrúa að glæpurinn sé lítill og saklaus. Fulltrúinn bar hann síðan að jöfnu við andstöðu Vantrúar við Þjóðkirkjuna.

Þessu hafna vantrúarmenn alfarið og benda á að starf Vantrúar eigi ekkert skylt við hatursáróður líkt og þann sem átti sér stað í Sogamýri.

Matthías Ásgeirsson er meðlimur í vantrú.

„Það er náttúrlega ekki líðandi að tengja Vantrú við eitthvað svona. Við höfum aldrei staðið fyrir nokkru á þessu kalíberi, það að fulltrúi lögregluembættisins sé að bendla okkur, eða líkja okkur, við svona gjörning sem er mjög grófur, er ekki ásættanlegt. Það sjá það allir,“ segir hann.

Svínshausinn sem fannst á lóðinnimynd/vilhelm
„Það er fullt af fólki sem heldur að við myndum gera eitthvað svona, við höfum í gegnum tíðina verið orðuð við einhverja grófa gjörninga. Eins og þegar rúður hafa verið brotnar í kirkjum, eða jafnvel þegar kirkja var brennd þá fór fólk á vefmiðlum að bendla Vantrú við málið. Við stöndum ekki fyrir eitthvað svona. Við erum ekki að skemma eða meiða. Við gagnrýnum á netinu og við skrifum greinar, stundum finnst fólki við ganga langt en við göngum ekki svona langt. Við teljum að embættið eigi að biðja okkur afsökunar,“ segir Matthías. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×