Innlent

Niðurstöðurnar áhyggjuefni - "Færri afburðanemendur“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
mynd/Vilhelm Gunnarsson
„Við erum að skoða þetta. Við lítum alvarlegum augum á þessar niðurstöður,“ segir Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasamband Íslands, um niðurstöður nýrrar PISA rannsóknar. Meginniðurstöður rannsóknarinnar séu þær að frammistöðu íslenskra grunnskólabarna hefur hrakað í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði á síðustu tíu árum.

„Niðurstöðurnar um læsið valda okkur auðvitað áhyggjum og það að það eru færri afburðanemendur,“ segir hann. Það sé ljóst að það þurfi að efla rannsóknir og rýna þurfi vel í það hvað megi betur gera og finna orsakasamhengið.

Hann segir þó að ekki sé allt neikvætt, það séu líka jákvæðir þættir sem líka sé vert að skoða. Hann nefndir í því sambandi að Íslands sé næst efst á lista yfir þau lönd þar sem nemendum líður vel í skólanum. „Það er greinilegt að íslenskum nemendum líður vel í skólanum,“ segir Þórður.

Annað jákvætt dæmi er að foreldrar geti búist við sambærilegum skólum hvar sem er á landinu, það sé niðurstaðan þrátt fyrir að árangur nemenda á landsbyggðinni mælist mun slakari en hjá nemendum á höfuðborgarsvæðinu.

Stjórnvöldum hafi margoft verið bent á að það megi ekki slá slöku við þegar að skólakerfinu kemur en töluvert hafi verið skorið niður af fjármagni til skólahalds. „Við óttumst að þetta sé eitt af því sem hafi áhrif,“ segir hann.

Niðurstöðurnar sýni að ekki sé hægt að krefjast sífellt meiri sparnaðar og nú sé ljóst að sparnaðurinn sé farinn að bitna á einstökum nemendum jafnt sem skólahaldinu í heild sinni. „Við höfum haft áhyggjur af niðurskurðinum en frá því á árinu 2008 hafa sveitarfélög skorið niður um 30 prósent af fjármunum til skólahalds. Niðurskurðurinn hefur áhrif inn í framtíðina eins og strax er farið að sýna sig,“ segir Þórður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×