Innlent

Framkvæmdir í miðbænum ógna jólaverslun

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Framkvæmdum við Hverfisgötu fer senn að ljúka og er vonast til að verkinu verði að mestu lokið um miðjan desember.
Framkvæmdum við Hverfisgötu fer senn að ljúka og er vonast til að verkinu verði að mestu lokið um miðjan desember. Mynd / Vilhelm
„Þessar framkvæmdir á Hverfisgötu hafa áhrif á Laugaveginn og náttúrulega sérstaklega á þá sem eru í hliðargötum og á Hverfisgötu. Ég myndi ekki vilja vera í þeirra sporum,“ segir Hákon Jónsson, framkvæmdastjóri Jóns og Óskars á Laugaveginum.

Hann segir jólaverslun hafa farið rólega af stað í miðbænum og hann hafi áhyggjur af því að framkvæmdir á Hverfisgötu muni hafa slæm áhrif á hana í desem­ber. „Fólk nennir ekki að standa í veseni. Ef það heldur að það sé vesen að komast leiðar sinnar þá fer það mögulega eitthvert annað.“

Hugrún Dögg Árnadóttir, eigandi Kronkron, er fegin að það sé búið að opna Hverfisgötuna hjá hennar verslun. „Það væri náttúrulega rosa gott ef gatan væri opnuð fyrir jól. Við erum búin að finna fyrir þessu í allt sumar. En við erum borubrött og bjartsýn fyrir jólin.“

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, segir að verklok við Hverfisgötu hafi átt að vera í lok nóvember samkvæmt upphaflegum áætlunum.

„Þetta mun að mestu klárast um miðjan desember. Núna eru margir mikilvægir kaflar að klárast en eitthvað klárast ekki fyrr en eftir jól. Reykjavíkurborg skilur áhyggjur rekstraraðila í miðborginni og allt kapp verður lagt á að hraða framkvæmdum eins og unnt er.“

Jakob Frímann Magnússon, miðborgarstjóri, segir stemninguna alltaf vera til staðar í miðbænum fyrir jólin. Mynd / Valli
Samt alltaf stemning í miðbænum

„Auðvitað er hættulegt að standa í framkvæmdum á háannatíma en góðu fréttirnar eru að þetta mun skila miðborginni einhverri glæsilegustu götu sem hefur sést í borginni,“ segir Jakob Frímann Magnússon, miðborgarstjóri.

„En stemningin er til staðar í miðbænum þrátt fyrir framkvæmdir. Það hefur verið lagt meira í jólaskreytingar og viðburðahald. Frá og með 12. desember verður opnunartími lengdur og fólk getur notið verslana, veitingastaða og alls þess sem miðbærinn hefur upp á að bjóða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×