Innlent

Geta ekki veitt alla síldina í Kolgrafafirði

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Örn segir ólíklegt að það takist að veiða alla þá síld sem heimild er fyrir að veiða í Kolgrafafirði.
Örn segir ólíklegt að það takist að veiða alla þá síld sem heimild er fyrir að veiða í Kolgrafafirði. mynd/365
Smábátar hafa fengið heimild til að veiða 1300 tonn af síld Í Kolgrafafirði. Að sögn Arnar Pálssonar, framkvæmdarstjóra Landssambands smábátaeigenda, er þó ekki nema brot af bátunum sem komast undir brúna sem liggur yfir fjörðinn.

Hann segir að það mjög varhugavert fyrir báta að fara undir brúna og að ekki sé hægt að komast undir hana nema á ákveðnum tímum í sambandi við fallaskipti. Veðrið hafi líka sín áhrif. Í gær hafi verið fjórir bátar á veiðum í firðinum og veiðar gengu ágætlega. Hver bátanna er þó ekki að veiða nema um fjögur tonn.

Örn segir ólíklegt að það takist að veiða alla þá síld sem heimild er fyrir að veiða í Kolgrafafirði. Sambandið muni fara fram á að þessar veiðiheimildir verði veittar þannig að heimild fáist til að veiða þessi 1300 tonn af síld fyrir utan brúna.

Hann segir þessi 1300 tonn ekki mikinn hluta af því sem heimilt er að veiða af síld yfir árið. En það séu 81 þúsund tonn. Það sem af er ári hafi aðeins verið veidd um 47 þúsund tonn.

„Það er ráðherra að ákveða það hvort bætt verði við síldarkvóta smábáta í Breiðafirði,“ segir Örn.

Áður höfðu smábátar fengið heimild til að veiða 700 tonn af síld í Breiðafirði en sá kvóti hafi nú verið fullnýttur.  Fyrir hvert kíló sem veitt er greiða eigendur bátanna 13 krónur til ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×