Innlent

Vill skoða hvort rétt sé að loka ferðamannasvæðum yfir vetrartímann

Höskuldur Kári Schram skrifar
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, vill skoða hvort rétt sé að loka ákveðnum ferðamannasvæðum yfir vetrartímann til að koma í veg fyrir slys. Lilja hefur ásamt sjö þingmönnum úr öllum flokkum lagt fram þingsályktunartillögu um að unnið verði áhættumat með tilliti til ferðamennsku í landinu í samvinnu við þá sem koma að björgunar- og ferðamálum.

„Við teljum að það sé orðinn það mikill ferðamannastraumur til landsins og það sé löngu orðið tímabært að gera áhættumat fyrir Ísland með tilliti til þess og þá sé horft til ferðamennsku, öryggismála, björgunarmála og náttúruverndar. Það var farin af stað vinna á síðasta kjörtímabili af hálfu Umhverfisstofnunar, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Ferðamálastofu og þeir skiluðu drögum að skýrslu um öryggi á ferðamannastöðum. Þetta er fyrst og fremst hugsað til þess að ljúka þeirri vinnu," segir Lilja.

Lilja vill skoða hvort rétt sé að loka ákveðnum ferðamannasvæðum yfir vetrartímann.

„Þetta væri þá einn liður til þess að meta það hvernig við viljum sjá ferðamannafjöldann dreifast um landið og hvort einhver svæði séu tekin út fyrir sviga. Við séum þá ekki að hleypa ferðafólki inn á ákveðin svæði á ákveðnum árstímum," segir Lilja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×